Borgarstjórinn liggur undir grun um fjárdrátt og lögreglan undirbýr gildru á móteli til að standa hann að verki. Fljótt kemur í ljós að lögreglufulltrúarnir tveir eru kannski ekki þeir allra hæfustu og samband annars þeirra við kynsveltan endurskoðanda í næsta herbergi einfaldar ekki framvinduna. Þegar við þetta bætast svo óöruggur öryggisvörður úr Ráðhúsinu, illskiljanlegur leigumorðingi og elskuleg borgarstjórafrú er ekki von á góðu.
Svona hefst Óþarfa offarsi, átta hurða, léttgeggjaður farsi sem Leikfélag Kópavogs frumsýnir laugardaginn 21. febrúar næstkomandi. Verkið er eftir Paul Slade Smith og leikstýrt af Herði Sigurðarsyni sem einnig þýðir.
Sýningin gerist í tveimur samliggjandi mótelherbergjum. Lögreglan hefur komð sér fyrir öðrum megin og sett upp upptökubúnað í hinu herberginu þar sem nýr endurskoðandi borgarinnar á bókaðan fund með borgarstjóranum. Innangengt er á milli herbergjanna og eins og vænta má í góðum farsa er mikil umferð um dyrnar átta sem eru á sviðinu.
Sjö leikarar taka þátt í sýningunni en fjöldi manns að auki hefur unnið hörðum höndum undanfarnar vikur við smíði leikmyndar, gerð búninga, hönnun ljósa, hljóðs og annars sem slík sýning krefst.
Óþarfa offarsi sem heitir Unnecessary farce á frummálinu var fyrst frumsýndur í Bandaríkjunum árið 2006 en hefur síðan verið sýndur víða um heim og nú er komið að frumflutningi hér á landi.
Leikfélag Kópavogs hefur farið mikinn á undanförnum árum og fjölbreytnin í verkefnavali verið mikil. Á síðasta ári setti félagið til dæmis upp rómaða sýningu á Þremur systrum eftir Anton Tsjekhov og í október var Elskhuginn eftir Nóbelskáldið Harold Pinter á fjölunum.
Eftir dramatískt tímabil er hinsvegar komið að því að kitla hláturtaugarnar svo um munar.
Óþarfa offarsi hefur fengið frábær-ar viðtökur úti í heimi og fróðlegt verður að sjá hvernig hann fer í íslenska áhorfendur.
Nánari upplýsingar um sýninguna má fá á vef félagsins www.kopleik.is.