Á morgun, föstudag, munu öll leikskóla- og grunnskólabörn auk unglinga úr félagsmiðstöðvum Kópavogs ganga gegn einelti. Gengið verður í öllum skólahverfum bæjarins.
Dagurinn 8. nóvember hefur á landsvísu verið helgaður baráttunni gegn einelti. Þetta er hins vegar í fyrsta sinn sem Kópavogsbær tekur þátt í deginum með svo afgerandi hætti. Markmiðið er að vekja athygli á því böli sem einelti er og hvetja foreldra, börn og unglinga til þess að halda vöku sinni og hrekja þennan óvin á flótta.
Dagskráin er eftirfarandi:
Kársneshverfi klukkan 10:00 – 11:00
Nemendur úr 9. og 10. bekk aðstoða leikskólana í göngunni og fylgja leikskólabörnum á endastöð. Allir safnast saman á Rútstúni (kl. 10.30) þar sem verður brekkusöngur. Nemendur Kársnesskóla hanna barmmerki sem á stendur: „Vinátta á Kársnesi“ og munu allir bera það þennan dag.
Miðbærinn klukkan 11:00 – 12:00
Nemendur Kópavogsskóla ganga af stað og sækja leikskólabörnin. Því næst verður gengið að bæjarskrifstofum og þeir sem þar eru boðið að slást í hópinn. Frá bæjarskrifstofum verður síðan gengið á Hálsatorg (kl.10.20)þar sem ætlunin er að afhenda bæjarstjóra skjal gegn einelti.
Smárahverfi klukkan 9:50 – 10:30
Gengið frá Smáraskóla upp á Hálsatorg þar sem ætlunin er að afhenda bæjarstjóra skjal gegn einelti.
Snælandshverfi klukkan 9:50 – 11:30
Íbúar hverfisins eru hvattir til að hafa grænan lit áberandi en hann er fenginn úr eineltishringnum. Ganga hefst við Snælandsskóla og munu yngstu nemendur grunnskólans sækja elstu nemendur leikskólanna. Ganga fyrst hring í Fossvogsdalnum og síðan í íþróttasal, allir syngja saman lagið Það eru ekki allir eins. Skemmtiariði og undirrituð sáttmálsörk .
Álfhólsskólahverfi klukkan 10 – 11:30
Nemendur úr grunnskóla skiptast í þrennt eftir stigum og sækja í leikskólana. Hóparnir ganga svo frá þessum þremur leikskólum og hittast í íþróttahúsinu Digranesi. Sameiginlegur dans og vinasöngur þar og svo er gengið til baka.
Lindahverfi klukkan 8:55 – 10:00
Gangan hefst í Lindaskóla og liggur leiðin fyrst á leikskólann Dal þar sem unglingar para sig við börnin og leiða þau í göngunni, haldið á leikskólann Núp (kl.9.30)og sama fyrirkomulag þar sem unglingar para sig við leikskólabörnin. Endað á planinu/íþróttahúsinu í Lindaskóla þar dansari kennir nokkur spor.
Salahverfi klukkan 9:30 -10:00
Nemendur Salaskóla munu mæta fyrirfram í sinnhvorn leikskólann og ganga með leikskólabörnum á skólalóðina.Gengið verður frá báðum leikskólum og endað á skólalóð Salaskóla þar sem fjöldasöngur mun fara fram undir stjórn Fönix og Rjúpnahæðar.
Kórahverfi klukkan 9:30 – 11:00
Gengið að leikskólanum Baug þar sem leikskólabörn slást í hópinn. Þaðan ganga allir saman smá hring í hverfinu. Síðan liggur leiðin í Kórinn þar sem hópnum verður skipt upp og farið í hópeflisleiki við allra hæfi.
Vatnsendahverfi klukkan 10:10 – 11:30
Skólarnir hittast við útsýnisskífu í Grandahvarfi. Skólahljómsveitin fer fyrir göngunni. Gengið saman eftir göngustígum og í Vatnsendaskóla þar sem slegið verður upp sameiginlegum Zumba dansi.