„Af hverju er skordýrið kallað silfurskotta?“ spyr meindýraeyðirinn Konráð Magnússon í kynningu á Leikskólanum Dal í Funalind. „Af því að það stelur silfri“ svarar einn nemandinn sem er enn með hendina upprétta. Fróðleiksfús leikskólabörn sýndu því áhuga að fá að fræðast um skordýr og Konráð, sem rekur fyrirtækið Firring ehf, var ánægður með að svara kallinu og halda fyrirlestur.
„Þetta var hugmynd frá barni“ sagði Sóley Gyða Jörundsdóttir, leikskólastjóri Dals. „Þessu var tekið fagnandi og var skemmtilega út fyrir rammann að fá meindýraeyði til að halda fyrirlestur“, bætti hún við. Patrekur Ari, 6 ára nemandi í Dal, á sér þann draum að verða skordýrafræðingur og það var hann sem óskaði eftir þessu. Hann var mjög ánægður með fyrirlesturinn. „Ég þekki mikið til um skordýr og margfætlur eru í uppáhaldi hjá mér“, sagði Patrekur.
Konráð hafði mjög gaman að þessu og sagðist hafa orðið hissa og ánægður þegar haft var samband við hann. Spurningar barnanna komu honum ekkert sérstaklega á óvart. Almenn vitneskja fólks um skordýr er af skornum skammti og það var margt fróðlegt sem fram kom þarna. Börnin höfðu undirbúið sig vel og voru með safn af skordýrum og spurðu Konráð spjörunum úr.
Meðal þess sem kom fram var að veggjalús var algeng á heimilum fólks allt til 1918 eða þegar frostaveturinn mikli kom; blóðhiti skordýra er jafnheitur og heimilið þar sem þau eru, rykmaurar nærast á húð fólks meðan það sefur og hættuleg skordýr geta ekki fjölgað sér á Íslandi sökum veðurfars. Kóngurlær, ekki skordýr heldur áttfætlur, eru lífsnauðsynlegar fyrir manninn þar sem þær borða mikið magn af skordýrum. „Ef ekki væri fyrir kóngulær þá væru bara til skordýr“ sagði Konráð. Þar sem hann er meindýraeyðir barst talið að fleiri tegundum en skordýrum og börnin vildu vita um muninn á hagamús og húsamús. „Húsamús bítur á meðan hagamús bítur ekki“ sagði Konráð og hann ítrekaði við börnin að láta rottur alveg eiga sig þar sem þær bera sýkla með sér og bit þeirra getur verið hættulegt. Einn óttalaus nemandi fangaði geitung einungis nokkrum mínútum fyrir fyrirlesturinn (sem reyndist vera drottning) og hafði mikinn áhuga á að fræðast um hann. Geitungur getur stungið endalaust með broddi sínum en býflugur eru hættulegri. Hunangsflugur eru meinlausari og stinga aðeins ef þær halda að þær séu að deyja.
Það var margt áhugavert sem börnin fengu að heyra á þessum fyrirlestri og ekki annað að sjá en þau væru sátt að honum loknum. „Þetta var mjög gaman en tíminn leyfir ekki að gera mikið af þessu“ sagði Konráð sem sagði einnig að þetta væri það alskemmtilegasta starf sem hann hefði kynnst.