Lengi býr að fyrstu gerð

 

Daði Rafnsson, yfirþjálfari yngri flokka hjá Breiðablik.
Daði Rafnsson, yfirþjálfari yngri flokka hjá Breiðablik.

Um síðustu helgi hélt KSÍ ráðstefnu um fjölgun iðkenda í yngri flokkum kvenna. Þótt kvennalandsliðið hafi náð miklum árangri undanfarin ár hefur iðkendum ekki fjölgað og jafnvel fækkað á sumum stöðum.

Kynnt var áhugarvert leikskólaverkefni Fram og Pálmar Guðmundsson frá Grindavík sýndi fram á mikilvægi þess að fá áhugasama þjálfara til að vinna með ungum stúlkum. Þarna mátti heyra góðar sögur sem hafa skilað árangri, félögunum til sóma.

Sverrir Óskarsson kom fram fyrir hönd Breiðabliks og kynnti starf 8. flokks kvenna en 80-90 stúlkur á aldrinum 3-6 ára æfa knattspyrnu að staðaldri hjá Breiðablik. Sverrir hefur ásamt þjálfurum 8. flokks unnið frábært brautryðjendastarf fyrir þennan aldursflokk en áður en boðið var upp á sérstakar æfingar fyrir stelpur haustið 2012 voru ekki nema 10-15 á þessum aldri að æfa fótbolta.

Sverrir hefur lengi starfað í hópi frábærra barnaþjálfara hjá Breiðablik. Hann sýndi einnig þetta myndband sem hann tók saman fyrir þjálfararáðstefnu Bandaríska Þjálfarasambandsins.

http://www.youtube.com/watch?v=1qagNb0f2SE

Þegar Sverrir hafði lokið máli sínu tók ég við og benti á að innan Breiðabliks hefði orðið mikil hugarfarsbreyting undanfarinn áratug hvað varðar þjálfun og aðbúnað yngri flokka kvenna. Þrír af hverjum fjórum þjálfurum hjá Breiðablik hafa þjálfað bæði kynin undanfarin ár og sem yfirþjálfari finn ég ekki fyrir fordómum þjálfara gagnvart því að vinna með stúlkum frekar en strákum. Stjórn og unglingaráð eru jafnframt mjög jafnréttissinnuð og ekki eru greidd hærri laun fyrir að þjálfa stráka en stelpur. Félagið hefur að auki metnað fyrir því að hafa góða þjálfara á yngstu flokkunum sem og þeim eldri. Breiðablik hlaut jafnréttisviðurkenningu frá Kópavogsbæ á síðasta ári fyrir starf sitt í kvennaflokkum.

Áherslan á góða þjálfun í Breiðablik, eins og Grindavík hefur greinilega gert hefur skilað því að fjölgun í kvennaflokkum hefur verið ævintýri líkust. Árið 2009 voru 16 stúlkur í 3. flokki kvenna, 35 í 4. flokki kvenna, 40 í 5. flokki kvenna og 25 í 6. flokki kvenna. Sumarið 2014 verða 40 stúlkur í 3. flokki kvenna, 80 í 4. flokki kvenna, 80 í 5. flokki kvenna og 90 í 6. flokki kvenna.

Þetta er mikið fagnaðarefni. Við heyrum útundan okkur athugasemdir á borð við að Breiðablik leggi of mikla áherslu á kvennaknattspyrnu. Að félagið sé Pæjumótsklúbbur og svo framvegis. Þeir sem halda slíku fram gleyma því að á sama tíma hefur vegur karlaboltans vaxið heldur betur þannig að félagið sem var áður grænt og féll á haustin er nú ávallt listað í topp 4-5 þegar sérfræðingar spá fyrir um sumarið.

Þeir sem komu á leik FH og Breiðabliks í Kaplakrika í gærkvöldi og sátu með stuðningsmönnum Blika gátu séð troðfulla stúku. Þar á meðal var stór hluti ungra stúlkna sem gerðu sér ferð í Hafnarfjörð til að horfa á Finn Orra, Gunnleif og Árna Vill spila fótbolta. Þar mátti sjá núverandi iðkendur úr 7. flokki upp í 2. flokk, fyrrverandi iðkendur sem eru sjálfar hættar knattspyrnuiðkun og foreldra stúlkna sem fara með þeim á völlinn. Knattspyrnan sjálf hefur grætt.

Jafnrétti í knattspyrnu skilar á þennan hátt örugglega meiri tekjum í kassann til lengri tíma litið fyrir þá sem mæla árangur í peningum. En eins og rætt var um á ráðstefnu KSÍ er þetta einfaldlega spurning um hvernig samfélag félögin vilja skapa fyrir sitt nærumhverfi. Fundarmenn voru sammála um að fjölmiðlar mættu taka þetta til athugunar. Það hefur sýnt sig að þegar ráðnir eru íþróttafréttamenn sem hafa áhuga á kvennaknattspyrnu hefur vegur hennar vaxið hjá þeim miðlum.

Á síðasta aðalfundi KSÍ kom fram tillaga um að breyta keppnisfyrirkomulagi í 2. flokki kvenna. Flest félög eru í vanda við að manna lið á aldrinum 17-19 ára. Ég vil meina að það skipti engu máli hverju er breytt hjá þeim eldri á meðan félögin sinna ekki þeim yngstu. Ef ekki næst í 3 lið í 5. flokki sumarið 2013 hvernig á þá að manna 2. flokk sumarið 2018.

Lengi býr að fyrstu gerð. Þjálfarar 8. flokks kvenna Sverrir, Kristinn, Lóa, Ella Dís og Esther eru að vinna frábært starf fyrir Breiðablik og íslenska knattspyrnu.

-Daði Rafnsson,  yfirþjálfari yngri flokka hjá Breiðablik.
dadirafnsson.com

Deildu:

Facebook
Twitter
Pinterest
LinkedIn

Fleiri fréttir

Kópavogsblaðið komið út

Stolt Kópavogs eru á forsíðu Kópavogsblaðsins að þessu sinni. Karlalið Breiðabliks er komið í riðlakeppni Sambandsdeildar Evrópu eftir að hafa slegið út Struga frá Norður-Makedóníu. Blikar leika sex leiki í

Mygla hjá velferðarsviði

Velferðarsvið Kópavogsbæjar er ekki lengur með starfsemi í Fannborg 6. Slæm loftgæði eru í húsinu sem haft hefur áhrif á starfsfólk hússins og sýna nýjustu mælingar há gildi myglugróar. Því

Stuð á Hamraborg Festival

Hamraborg Festival fór fram í lok ágúst í Hamraborg og í menningarhúsunum í Kópavogi, en Hamraborg Festival er þverfagleg hátíð með sérstakri áherslu á myndlist, staðbundin verk, gjörningalist og samfélagslega

Króníkan opnar í Gerðarsafni

Veitingastaðurinn Króníkan opnaði í sumar í Gerðarsafni. Samningur við nýjan rekstraraðila var undirritaður 11.maí, á afmælisdegi Kópavogsbæjar. Bragi Skaftason og Sigrún Skaftadóttir, systkini úr Vesturbæ Kópavogs, hafa tekið reksturinn að sér