Lengi býr að fyrstu gerð


Ingibjörg Auður Guðmundssdóttir er í 5. sæti á lista BF Viðreisnar í Kópavogi.

Leikskólinn er upphaf formlegrar menntunar, fyrsta skólastigið. Þessi tími í lífi barns er gríðarlega mikilvægur í að styrkja hæfni og efla almennan mál- og félagsþroska. Í Kópavogi eru reknir 23 leikskólar og þar starfa um 600 manns – nærri fjórðungur starfsmanna sveitarfélagsins.

Leikskólar Kópavogs eiga að vera  eftirsóttir vinnustaðir og það er á ábyrgð kjörinna fulltrúa að tryggja að svo sé. Starfsfólk þarf að fá stuðning til að sækja sér menntun og sveigjanlegur vinnutími og stytting vinnuvikunnar er leið til að létta á álagi. Sameiginleg útfærsla sumarleyfa eflir samstarf heimila og skóla, skapar traust. Vinnuaðstaða skiptir líka máli, s.s. hljóðvist og aðstaða á skólalóðum. Við eigum líka að stuðla að lýðheilsu starfsfólks. Við eigum frábærar sundlaugar í Kópavogi og starfsfólki skólanna okkar á að sjálfsögðu að hafa aðgang að þeim, þeim að að kostnaðarlausu.

Þrátt fyrir margvíslegar aðgerðir, eru í  dag rúmlega 100 leikskólapláss ónýtt í Kópavogi, sökum erfiðleika við að manna í lausar stöður. Með ofangreindum aðgerðum, sem einungis eru fyrsta skref, finnur núverandi starfsfólk vonandi breytingar á eigin skinni og fólk í leit að starfi horfir meira til leikskóla í Kópavogi. Til viðbótar við aðgerðir til að bæta kjör og starfsaðstöðu er mikilvægt að Kópavogur fari af stað með uppbyggingu á ungbarnaleikskólum, eða sérstökum ungbarnadeildum á leikskólum, þar sem það er hægt. Þar væri hægt að taka við börnum frá 9 mánaða aldri. Það skiptir okkur öll máli að stutt sé við börn og að álögum sé létt af barnafjölskyldum.

Dagvistunarmál eru jafnréttismál. Þess vegna er mikilvægt að brúa bilið milli fæðingarorlofs og leikskóla. Valmöguleikar um dagvistun verða að vera raunverulegir og foreldrar eiga að hafa val um dagforeldrakerfi eða ungbarnaleikskóla. Stofnstyrkir til dagforeldra voru nýlega hækkaðir í Kópavogi og framlög bæjarins munu hækka um tuttugu þúsund krónur þegar börn ná 15 mánaða aldri. Nú þegar hefur verið gert ráð fyrir 150 milljónum í sértækar aðgerðir í leikskólum Kópavogs á næsta ári. Við í BF Viðreisn ætlum að gera enn betur. Við ætlum að bæta kjör  og starfsaðstöðu kennara og starfsfólks í skólum Kópavogs með 500 milljóna króna innspýtingu .

Ég var sjálf á leikskólanum Marbakka á sínum tíma og dóttir mín mun nú í sumar kveðja Urðarhól og hefja grunnskólagöngu. Ég hef því kynnst á eigin skinni því frábæra starfi sem unnið er í leikskólum Kópavogs. Ég vil nota þetta tækifæri til að þakka starfsfólki Urðarhóls fyrir að kenna dóttur minni umburðarlyndi, hugrekki, umhyggju og sjálfstæði í leik og námi.