Velferðarsviði Kópavogsbæjar hefur verið falið að skoða gögnin sem UNICEF lagði til grundvallar rannsókn á högum barna og skili skýrslu til bæjarstjórnar Kópavogs um hversu mörg börn í Kópavogi líði efnislegan skort og verulegan skort og sundurliði hann á sama hátt og gert er í skýrslu UNICEF. Ákvörðun um þessa vinnu var tekin á fundi bæjarstjórnar í janúar þar sem undirritaður hafði framsögu um skýrslu UNICEF um barnafátækt á Íslandi og lagði til að þessi mál yrðu skoðuð hér í bæ. Meðflutningsmenn voru Margrét Friðriksdóttir og Sverrir Óskarsson bæjarfulltrúar Sjálfstæðisflokks og Bjartrar framtíðar. Gögnin sem rannsökuð voru í skýrslu UNICEF komu úr viðauka við lífskjararannsókn Evrópusambandsins en hún er lögð fyrir heimili á Íslandi á hverju ári. Árin 2009 og 2014 var sérstökum viðauka bætt við þar sem upplýsingum um stöðu barna var safnað sérstaklega. Upplýsingarnar voru því til staðar þegar vinna við greininguna hófst, þær höfðu hinsvegar ekki verið greindar með þessum hætti áður.
Sviðin sem skoðuð voru eru:
Næring; Hvort börn fái ávexti eða grænmeti daglega og a.m.k. eina kjöt, fisk eða grænmetismáltíð á dag.
Klæðnaður; Eigi föt sem enginn annar hefur átt, eigi tvenna skó sem passa.
Menntun; Geti tekið þátt í ferðum og viðburðum á vegum skólans, og hvort þau séu með aðstöðu til heimanáms.
Upplýsingar; Hvort viðkomandi hafi aðgengi að tölvu og sjónvarpi á heimilinu.
Húsnæði; Býr við þröngbýli, fleiri en tveir um eitt herbergi, hefur ekki aðgengi að baðkeri, sturtu, salerni og hvort næg dagsbirta berist inn um gluggana á húsnæðinu.
Afþreying; Á ekki bækur sem henta aldri, á ekki leiktæki, leikföng eða íþróttaútbúnað til að nota utandyra. Á ekki leikföng til að leika sér með innandyra.
Félagslíf; Getur ekki haldið upp á afmæli eða önnur tímamót í lífi sínu. Getur ekki boðið vinum sín-um heim til að leika við eða borða með.
Alls var spurt um 12 atriði bæði árin og þau atriði lögð til grundvallar skýrslu UNICEF. Skorti tvö af þessum atriðum er barn talið búa við skort, skorti þrjú af þess-um atriðum er barn talið búa við verulegan skort.
Í ljós kemur að gera má ráð fyrir því að tæplega 9.000 börn á Íslandi líði skort á sviði húsnæðis. Þröngbýli er oftast ástæða þess að barn telst líða skort á þessu sviði. Gera má ráð fyrir að í kringum 3.400 börn líði skort hvað varðar félags-líf. Algengasta ástæðan er sú að barnið getur ekki boðið vinum sínum heim til að borða eða leika við. Á árinu 2009 var ekkert barn sem skoraði yfir 4 atriði á listanum. Á árinu 2014 voru börn sem skoruðu á allt að sjö atriðum á listanum sem spurt var um og er það mikið áhyggjuefni.
Hvað segir skýrslan okkur um húsnæðismarkaðinn?
Staða almennings á húsnæðismarkaði hefur breyst undanfarin ár. Í skýrslunni kemur fram að árið 2007 voru u.þ.b. 82% heimila á Íslandi í eigin húsnæði en árið 2013 voru það 72%. Árið 2007 voru 18% heimila á leigumarkaði en árið 2013 hafði hlutfallið hækkað upp í 28%. Þeim hefur því fjölgað mjög sem eru á leigumarkaði.
Greining UNICEF leiðir í ljós talsverða breytingu til hins verra hjá þeim börnum sem eiga foreldra á leigumarkaði.
Árið 2009 bjuggu 6,6% barna á leigumarkaði við skort en árið 2014 hafði þetta hlutfall tæplega þrefaldast og var komið upp í 19%. Þegar litið er til annarra sviða sést að þar skiptir einnig miklu máli hvort foreldrar barna eiga sitt eigið húsnæði eða eru á leigumarkaði. Börn þeirra sem eru á leigumarkaði búa við umtalsvert meiri skort en börn þeirra sem búa í eigin húsnæði.
Hægt er að álykta um húsnæðismarkaðinn, hann er orðinn leigendum of dýr sem veldur skorti á öðrum sviðum. Ljóst er að þörf er á átaki í þessum málaflokki. Húsnæðisskýrsla Kópavogsbæjar gerir ráð fyrir að 4.5 % af nýbyggingum í fjölbýli verði félagslegt húsnæði. Hugsanlega er þetta of lág tala, hugsanlega þarf að gera átak í málaflokknum og hækka það hlutfall tímabundið til að ná yfir vandamálið. Enn fremur að bæta í hvað varðar hugmyndir um smærri og ódýrari íbúðir til kaups eða leigu.
Þekking á stöðu mála er grundvöllur aðgerða. Því kemur fram þessi tillaga um sérstaka skoðun þessara mála í Kópvogi. Þannig getur bæjarstjórn fengið upplýsingar um stöðu mála í bænum. Er staðan betri eða verri en annarstaðar? Í framhaldinu verður hægt að grípa til aðgerða.