Sölubás Regnbogabarna er áberandi á Hamraborarhátíðinni í ár en það er enginn annar en Glanni glæpur sem sér um að koma namminu ofan í börnin.
Stefán Karl Stefánsson, sem þekkir Glanna ágætlega, segir Hamraborgarhátíðina frábæran vettvang til að kynna starfsemi Regnbogabarna – og safna um leið fjármunum fyrir starfsemina. „Glanni segir það gott að selja nammi í Kópavogi en við hjá Regnbogabörnum viljum endilega koma því að að við eigum öll að vera vinir og að aðgát skal höfð í nærveru sálar. Það er yndislegt að vera hér í Kópavogi og hingað á básinn okkar eru allir velkomnir,“ segir Stefán Karl.
Skammt frá bás Regnbogabarna hittum við fyrir listamenn sem voru að kynna starfsemi Molans. Molinn – ungmennahús er fyrir ungt fólk á aldrinum 16 ára og upp úr sem býður upp á jákvætt og vímulaust umhverfi og afþreyingu.
Árni Guðmundsson og Magni Þór Pétursson voru að mála listaverk þegar við litum til þeirra. „Molinn er lista- og menningarhús fyrir ungt fólk. Við komum að sýningum og hjálpum ungu listafólki í Kópavogi að koma sér á framfæri. Það eru allir velkomnir í Molann,“ segir Árni.
Þær Sigga og Elín G hjá leikskólanum Arnarsmára höfðu nóg að gera við að selja grænmeti, brauð og eigin matreiðslubók þegar okkur bar að garði.
„Það er allt á fullu hérna hjá okkur á Hamraborgarhátíðinni. Við erum að safna í vorferð til Berlínar fyrir kennarana sem eru um 25 talsins. Matreiðslubókin okkar með alls konar uppskriftum rokselst – sem kemur okkur eignlega ekki á óvart því hún leysir allar aðrar matreiðslubækur af hólmi!“ segir Elín, kampakát.