
Flestir sem eiga leið framhjá gamla Toyota húsinu við Nýbýlaveg taka eftir risastóru „Til Leigu“ skilti sem blasir þar við. Nú er að byggjast þar upp öflugur kjarni verslunar og þjónustu, að því er fram kemur hjá Markaðsstofu Kópavogs. Bónus opnaði nýverið verslun á Nýbýlavegi 4 og á næstunni mun Lyfja hefja rekstur í sama húsi. Metabolic mun fljótlega opna líkamsræktarstöð á Nýbýlavegi 6, en í sama húsi er Hátækni með útsölumarkað. Von er fleiri rekstaraðilum í það húsnæði. Á Nýbýlavegi 8 eru sprotasetrið Byrjunarreitur með starfsemi ásamt fasteignasölunni Domusnova og bónstöðinni Eðalbón. Nýlega festi Kaffitár kaup á húsnæðinu á Nýbýlavegi 12 þar sem bráðlega opnar kaffistaður á þeirra vegum sem hefur fengið nafnið Kruðerí. Það verður því nóg um að vera í þessu frábæra verslunarhúsnæði sem sumir vilja fara að nefna „Glæsibæ“ okkar Kópavogsbúa.