Kópavogsbær og Listaháskóli Íslands gera samkomulag.

Útskriftarsýningar meistaranema verða í Gerðarsafni

Kópavogsbær og Listaháskóli Íslands hafa gert með sér samkomulag um að útskriftarsýningar meistaranema í myndlist og hönnun verði haldnar í Gerðarsafni, listasafni Kópavogs. Samningur þess efnis var undirritaður í Gerðarsafni í dag. Meistaranám í myndlist og hönnun við Listaháskólann hófst haustið 2012 og brautskráir skólinn fyrstu nemendur námsbrautanna tveggja næsta vor. Fyrsta útskriftarsýning meistaranemanna verður því haldin í apríl. Samningurinn nær til þriggja ára.

Við undirritun í dag, frá vinstri: Kristján Steingrímur Jónsson, Fríða Björk Ingvarsdóttir, Ármann Kr. Ólafsson, Karen E. Halldórsdóttir og Sigrún Birgisdóttir.
Við undirritun í dag, frá vinstri: Kristján Steingrímur Jónsson, Fríða Björk Ingvarsdóttir, Ármann Kr. Ólafsson, Karen E. Halldórsdóttir og Sigrún Birgisdóttir.

Samningurinn var undirritaður af Ármanni Kr. Ólafssyni bæjarstjóra Kópavogs, Fríðu Björk Ingvarsdóttur, rektor LHÍ, Karen E. Halldórsdóttur, formanni lista- og menningarráðs, Sigrúnu Birgisdóttur, deildarforseta hönnunar- og arkitektúrdeildar LHÍ og Kristjáni Steingrími Jónssyni, deildarforseta myndlistardeildar LHÍ.

Mikil ánægja er með samninginn og er talið að hann auki enn veg skapandi greina og efli um leið menningarlífið í Kópavogi.

„Það er okkur í Kópavogi mikils virði að hýsa útskriftarsýningu meistaranema frá LHÍ. Með því leggur bærinn sitt að mörkum til að styðja við bakið á ungu og efnilegu listafólki og hönnuðum,“ segir Ármann Kr. Ólafsson, bæjarstjóri. „Um leið fær bærinn tækifæri til að sýna hve vel er hlúð að menningu og listum í bænum. Gerðarsafn, eitt öflugasta listasafn landsins, er á Borgarholtinu, þar sem fyrir eru fleiri söfn og menningarhús, svo sem Salurinn, fyrsti sérhannaði tónleikasalur landsins. Menningarhúsin og umhverfi þeirra býður upp á ýmsa möguleika fyrir skapandi listafólk og vonandi er þetta fyrsta skrefið að frekara samstarfi við LHÍ,“ segir Ármann.

„Með tilkomu meistaranáms í hönnun og myndlist haustið 2012 var brotið blað í sögu menntunar á fagsviðunum tveimur á Íslandi,“ segir Fríða Björk Ingvarsdóttir, rektor LHÍ. „Þróun hönnunarverkefna, listsköpunar og sjálfstæðra rannsókna meistaranema kristallast í lokaverkefni námsins sem sýnt er á opinberum vettvangi. Það er því afar mikilvægt fyrir Listaháskólann að ganga til samstarfs við öflugt listasafn á höfuðborgarsvæðinu og fá að tengjast og taka þátt í gróskumiklu menningarlífi Kópavogsbæjar. Væntingar okkar og óskir eru þær að báðir aðilar munu njóta góðs af og að skapandi greinar muni halda áfram að styrkjast og dafna fyrir þann áhuga og þá tiltrú sem hér er sýnd í verki,“ segir Fríða Björk Ingvarsdóttir, rektor LHÍ.

Í meistaranámi LHÍ fá myndlistarmenn og hönnuðir tækifæri til að dýpka og auka þekkingu sína í frjóu akademísku umhverfi. Áhersla er lögð á skapandi og greinandi hugsun sem nýtist við framsækin verkefni á fagsviðum hönnunar og myndlistar á Íslandi.

Gerðarsafn er í jaðri Borgarholtsins í Kópavogi og var opnað 17. apríl árið 1994. Það á 20 ára afmæli á næsta ári. Safnið ber nafn Gerðar Helgadóttur myndhöggvara sem lést fyrir aldur fram árið 1975. Safnið á rúmlega fjögur þúsund verk og hefur megináhersla þess verið á nútíma- og samtímalist.

-kopavogur.is

Deildu:

Facebook
Twitter
Pinterest
LinkedIn

Fleiri fréttir

Stórskemmtileg leiksýning fyrir yngstu kynslóðina

Leikfélag Kópavogs sýnir um þessar mundir barnaleikritið Ferðin til Limbó eftir Ingibjörgu Jónsdóttur (1953-1986) sem sett var upp í Þjóðleikhúsinu í janúar 1966. Leikritið byggir á barnabókinni Músabörn í geimflugi eftir sama

Er svefn besta verkjalyfið?

Svefn er ein af grunnstoðum góðrar heilsu ásamt góðri næringu, hreyfingu og vellíðan. Þegar við sofum notar líkaminn tímann til að endurnýja sig og undirbúa okkur fyrir næsta dag. Svefn