Sunnudaginn 14. júní kl. 15:00 verður listamannaspjall í Gerðarsafni. Erla Þórarinsdóttir og Dodda Maggý ræða við gesti um verk sín á sýningunni Birting. Frítt er inn og allir velkomnir.
Birting er samsýning á verkum eftir íslenska samtímalistamenn sem unnin eru út frá steindum gluggum Gerðar Helgadóttur (1928-1975) í Skálholtskirkju, Kópavogskirkju og víðar. Sýningunni er ætlað að vekja okkur til umhugsunar um staði á borð við söfn og kirkjur og þær athafnir sem þessum stöðum fylgja. Hvort sem um er að ræða formlegar, lágstemmdar eða hátíðlegar framsetningar hafa þær skýr áhrif á skynjun og upplifun áhorfendans. Taktföst form og litasamsetningin einkenna gluggainnsetningu Gerðar í Kópavogskirkju og mynda einskonar helgirými flæðandi forms óháð beinum trúarlegum vísunum, en er fremur ætlað að snerta áhorfandann með altækum og tilfinningalegum hætti. „Kirkjuleg“ eða „trúarleg“ þemu munu á sama hátt víkja fyrir víðtækari áherslum þar sem dregnir eru fram sammannlegir, andlegir, fyrirbærafræðilegir eða dulspekilegir þættir í verkum listamanna samtímans.
Listamenn auk Gerðar Helgadóttur (1928-1974) eru Guðrún Kristjánsdóttir (f. 1950), Erla Þórarinsdóttir (f. 1955), Guðrún Benónýsdóttir (f. 1969), Hekla Dögg Jónsdóttir (f. 1969), Dodda Maggý (f. 1981), Lilja Birgisdóttir (b. 1983), Katrín Agnes Klar (f. 1985) og Ingibjörg Sigurjónsdóttir (f. 1985).
Sýningarstjóri er Kristín Dagmar Jóhannesdóttir.
Sýningin stendur yfir til 2. ágúst 2015.