Listamenn frá Kópavogi eru þátttakendur á alþjóðlegri menningarhátíð sem nú stendur yfir í þýsku borginni Bonn. Í hópnum eru Rósa Gísladóttir listamaður og Íslenski kammerkórinn sem hefur lögheimili í Kópavogi. Ármann Kr. Ólafsson, bæjarstjóri Kópavogs, var af því tilefni viðstaddur opnun sýningar Rósu í Bonn og flutti þar stutt ávarp.
Í ávarpi sínu þakkaði bæjarstjóri borgaryfirvöldum í Bonn fyrir að bjóða listamönnum frá Kópavogi að taka þátt í menningarhátíðinni. Bæjarstjórinn sagði að það væri vel við hæfi því Kópavogur væri mikill menningarbær. Hér hefði mikil áhersla verið lögð á að styrkja listamenn og hópa og byggja upp menningarhús með öflugri starfsemi.
Menningarhátíðin í Bonn ber yfirskriftina: Þvert á landamæri. Auk listamanna frá Þýskalandi taka þar þátt listamenn frá Austurríki, Ghana, Úkraínu, Kína, Bólivíu og Uzbekistan.
Markmið hátíðarinnar er að gefa almenningi kost á að kynna sér listir og menningu frá ólíkum löndum. Einnig er tilgangurinn að efla tengsl listamanna þvert á landamæri.
Hátíðin í Bonn stendur yfir til 1. desember.