Listasprengja í Kópavogi 2021

Árið 2020 hefur svo sannarlega verið áskorun fyrir öll þau sem koma að skipulagi menningar- og listviðburða. Menningarhúsin í Kópavogi hafa, líkt og aðrir, lagað sig að ástandinu með því að bjóða upp á rafræna viðburði sem hægt er að njóta heima í stofu. Tíminn hefur einnig nýst í dýrmæta hugmyndavinnu og styrkingu innviða svo húsin verði enn betur í stakk búin til að taka á móti gestum þegar hægt verður að standa fyrir fjöldaviðburðum.

Soffía Karlsdóttir, forstöðumaður menningarmála í Kópavogi.

„Það er ljós við enda ganganna,” segir Soffía Karlsdóttir, forstöðumaður menningarmála í Kópavogi. „Nú, þegar hyllir undir lok COVID-19 heimsfaraldursins með komu bóluefnis getum við farið að láta okkur hlakka til menningarársins 2021. Gera má ráð fyrir algerri sprengingu í menningarviðburðum á komandi ári þegar við munum geta notið allra þeirra ótal viðburða sem við höfum þurft að slá á frest vegna faraldursins og svo nýrra og ekki síður spennandi uppákoma.“

Menningin heim í stofu

„Í vor fórum við út í framleiðslu á viðburðaröðinni Kúltúr klukkan 13 en þar buðum við upp á fjölbreytta og metnaðarfulla viðburði á netinu,“ segir Soffía. Í haust hefur svo Bókasafnið í Kópavogi staðið fyrir höfundaspjalli tvisvar í viku þar sem Maríanna Clara Lúthersdóttir og Guðrún Lára Pétursdóttir hafa rætt við fjöldann allan af íslenskum rithöfundum sem eru að gefa út nýjar bækur fyrir jólin. Menningarhúsin hafa framleitt fjöldann allan af skemmtilegu efni á þessu ári sem hægt er að finna á Youtube-rás Menningarhúsanna.

Jazz í Salnum

Á næstunni eiga tónlistarunnendur von á góðu þegar tónlistarhátíðin Jazz í Salnum verður send út á netinu og heim í betri stofu allra landsmanna. Jazz í Salnum hefur verið haldin árlega frá 2018 en þar hefur áhersla verið lögð á alþjóðlega jazzsenuna. Í ljósi núverandi ferðatakmarkana mun íslenskt jazztónlistarfólk hins vegar verða í brennidepli að þessu sinni en á meðal tónlistarmanna sem fram koma verða Sunna Gunnlaugsdóttir, Kristjana Stefánsdóttir, Davíð Þór Jónsson, Hilmar Jensson, Andrés Þór Gunnlaugsson og Scott McLemore, sem sagt margir af helstu jazztónlistarmönnum landsins sem flytja mjög fjölbreytta og skemmtilega efnisskrá.

Marína og Mikael koma fram í Jazz í Salnum.

Nýtt kaffihús í Gerðarsafn og Gerðarverðlaunin

Reykjavík Roasters mun hefja rekstur í Gerðarsafni snemma á næsta ári en það er mikið tilhlökkunarefni fyrir gesti og gangandi að geta aftur notið ljúffengra veitinga og drykkja í safninu. „Í Gerðarsafni var nýverið opnuð sýningin Skúlptúr / skúlptúr þar sem tveir, ungir myndlistarmenn, þau Magnús Helgason og Ólöf Helga Helgadóttir eru með einkasýningar. Þetta eru ótrúlega fallegar og hugmyndaríkar sýningar, báðar tvær, og ég leyfi mér að fullyrða að þær höfði til breiðs aldursbils svo fjölskyldan ætti að geta notið saman,“ segir Soffía sem upplýsir að framundan er afhending glænýrra myndlistarverðlauna, Gerðarverðlaunanna sem veitt verða í vikunni. Lista- og menningarráð styrkir verkefnið með verðlaunafé upp á eina milljón króna.

Menning um allan Kópavog

Framundan er úthlutun Lista- og menningarráðs Kópavogsbæjar til margvíslegra listviðburða víðs vegar um Kópavog en að sögn Soffíu barst mikill fjöldi afar áhugaverðra umsókna sem nú er verið að fara gaumgæfilega yfir. Um þessar mundir situr einnig dómnefnd Ljóðstafs Jóns úr Vör við ljóðalestur en metþátttaka var í keppninni að þessu sinni. Hátt í þriðja hundrað ljóð bárust auk þess sem fjöldinn allur af grunnskólanemum í Kópavogi sendi inn ljóð í grunnskólakeppnina. Ljóðstafur verður veittur á afmælisdegi skáldsins Jóns úr Vör, 21. janúar næstkomandi en við sama tilefni verður upplýst hverjir hljóta verðlaun i grunnskólakeppninni.

Fjölskyldustundir á laugardögum og Foreldramorgnar munu hefja göngu sína um leið og fjöldatakmörkunum verður aflétt.

„Menning á miðvikudögum, Fjölskyldustundir á laugardögum og Foreldramorgnar munu svo hefja göngu sína um leið og fjöldatakmörkunum verður aflétt. Gera má ráð fyrir mjög þéttu tónleikahaldi í Salnum, metnaðarfullum sýningum í Gerðarsafni og áfram má telja. Ekki má svo gleyma Vatnsdropanum, stóru, alþjóðlegu verkefni sem Menningarhúsin eru í forsvari fyrir ásamt virtum barnamenningarstofnunum á Norðurlöndunum en það verkefni mun fara af stað af fullum þunga á nýju ári,“ segir Soffía.

Mikil tilhlökkun fyrir nýju ári

„Slagorð okkar hefur verið: Menningarhúsin taka vel á móti þér. Þessi nálægð Menningarhúsanna í Kópavogi hvert við annað er einstök og slagkrafturinn sem af henni myndast er magnaður,“ segir Soffía. „Hér geta fjölskyldur átt saman gæðastundir, farið á myndlistarsýningar, fræðst um náttúruvísindi, notið tónleika, farið í listsmiðjur og margt margt fleira. Við getum ekki beðið eftir að fara aftur af stað með okkar flotta viðburðahald. Ef það er eitthvað sem árið 2020 hefur kennt okkur þá er það að menning og listir eru manneskjunni algerlega lífsnauðsynleg. Menningu í Kópavogi hefur verið sinnt af ótrúlega miklum metnaði og myndarbrag um langa hríð og ég get lofað því að við munum gefa enn betur í ef eitthvað er á næsta ári. Árið 2021 verður alger listasprengja,“ segir Soffía Karlsdóttir að lokum, full tilhlökkunar.

Umræðan

Fleiri fréttir

Höskuldur og Thelma íþróttakarl og íþróttakona ársins

Höskuldur Gunnlaugsson knattspyrnumaður úr Breiðabliki og Thelma Aðalsteinsdóttir fimleikakona úr Gerplu voru kjörin íþróttakarl og íþróttakona Kópavogs fyrir árið 2024.  Kjörinu var lýst á íþróttahátíð Kópavogs í Salnum miðvikudaginn 8.

Leifur Eiríksson Þjónustumiðstöð Kópavogsbæjar, Unnar Atli Guðmundsson plokkari, Ásdís Kristjánsdóttir bæjarstjóri og Ásthildur Helgadóttir sviðsstjóri umhverfissviðs.

Plokkari ársins

Unnar Atli Guðmundsson er plokkari ársins í Kópavogi. Bæjarstjóri Kópavogs Ásdís Kristjánsdóttir heiðraði Unnar í Þjónustumiðstöð Kópavogsbæjar en þangað sækir Unnar ruslapoka fyrir plokkið, sem unnið er í sjálfboðavinnu. Unnar

Aðventuhátíð Kópavogs

Aðventuhátíð í Kópavogi verður haldin með pompi og pragt, laugardaginn 30. nóvember. Ásdís Kristjánsdóttir bæjarstjóri tendrar ljósin á jólatré Kópavogsbæjar við menningarhúsin við hátíðlega athöfn kl. 17. Jólasveinar bregða á

Fjárhagsáætlun samþykkt

Fjárhagsáætlun fyrir árið 2025 var samþykkt í bæjarstjórn Kópavogs að lokinni seinni umræðu í vikunni Einnig var samþykkt þriggja ára áætlun fyrir tímabilið 2026-2028. Í tilkynningu frá Kópavogsbæ segir að