Fimmtudaginn 6. október var Gerðasafni afhent verk eftir Gerði Helgadóttur, myndhöggvara frá Elínu Pálmadóttur, fyrrum blaðamanni og persónulegum vini listamannsins.
Verkið var gjöf Gerðar til Elínar, sem hefur verið einn dyggasti stuðningsmaður listamannsins og ritaði um hana ævisögu sem kom út árið 1985. Elín hefur áður gefið Gerðarsafni listaverkagjafir eftir Gerði. Verkið sem hér um ræðir er líklegast frá fyrstu mánuðum hennar í París en þangað flytur hún um haustið 1949. Tóku verk hennar miklum breytingum þegar hún vék frá þeim nýklassísku aðferðum sem hún hafði kynnst á námsárunum á Ítalíu. Í París lærði hún undir handleiðslu rússneska myndhöggvarans Ossip Zadkine (1890-1967), sem var einn af frumkvöðlum kúbísk skúlptúrs.
Verkið verður til sýnis í rannsóknar- og fræðslurýminu +Safneignin, en þar er gestum er gefinn kostur á að líta á bak við tjöldin og kynnast því sem að öllu jöfnu tilheyrir innra starfi safns. Ásamt öðrum verkum Gerðar Helgadóttur, verða dregnar fram ýmsar heimildir sem veita innsýn í það merka starf sem Elín Pálmadóttir hefur unnið til að halda á lofti nafni listamannsins.
Gerðarsafn metur mikils þá hugulsemi og virðingu sem því er veitt með gjöfum Elínar Pálmadóttur. Ekki einungis með þeim verkum sem Elín hefur gefið heldur einnig þau menningarlegu verðmæti sem felast í starfi hennar og skrifum um Gerði.
Safneign Gerðarsafns er þriðja stærsta listaverkasafn á landinu og er nú um 4.250 verk. Uppistaðan er um 1400 verk eftir Gerði Helgadóttur, sem Kópavogsbær fékk að gjöf frá erfingjum hennar árið 1977. Gerður lést um aldur fram árið 1974, aðeins 47 ára gömul.