Þetta hljómaði eins og firrt framtíðarsýn (dystópía). Einkafyrirtæki lokaði af tveimur af fimm hverfum Kópavogs og skipti í litasvæði. Aðeins þeir sem höfðu þessa liti máttu yfirhöfuð aka inn á svæðið og enginn akstur leyfður á milli litasvæða. Hugurinn reikaði til bókaflokksins The Hunger Games með svæðin þrettán og bókarinnar Shades of Grey eftir Jasper Fforde þar sem litnæmni augans flokkaði þig í þjóðfélagsstöðu.
Reyndin varð nú ekki eins firrt og þetta var auglýst. Í framkvæmd voru lokanir ekki eins grimmar og auglýst hafði verið. Við Urðarhvarf var ekki lokað eins og auglýst hafði verið og íbúar Linda komust að mestu leiðar sinnar. Einstaka aðilar sem ekki höfðu bílapassa en gáfu gildar ástæður virtust fá að komast leiðar sinnar.
Sagan
Sagan hefst opinberlega hjá Kópavogsbæ þann 20. febrúar 2014 þegar frétt birtist á vef bæjarins um tónleikana og greint frá mikilli undirbúningsvinnu. Það er þó ekki fyrr en 16. apríl að bærinn veitir formlega leyfið á fundi bæjarráðs og svo 15. maí er tímabundið áfengisleyfi samþykkt.
Lögreglan vann skýrslu sem bar titilinn Tónleikar í Kórnum 2014. Umferðargreining þar sem lokanir voru engar í Lindum né Sölum. Endanlegar lokanir sem urðu umfangsmeiri voru ákveðnar af Senu í samráði við verkfræðistofu. Sena hafði vald til þess að ákveða
lokanir því að sveitarfélagið framselur umferðarstjórnun til viðburðarhaldara. Almenningur verður var við það í kringum stærri atburði, til dæmis Menningarnótt í Reykjavík þar sem fjögur þúsund íbúar lúta umferðartakmörkunum en þetta hefur líklega aldrei verið svona stórt í sniðum áður. 10 þúsund íbúar voru settir undir umferðarstjórnun Senu.
Tónleikarnir voru auglýstir sem þeir stærstu innandyra á landinu með 16 þúsund miða selda. Eldra fólk man þó eftir tónleikum Metallicu í Egilshöll 4. júlí 2004 þar sem 18 þúsund miðar voru seldir.
Framkvæmdin
Bílapassarnir sem gáfu íbúum réttindi til að keyra inn á sitt litasvæði komu í hús á föstudegi fyrir íbúa til að nota á sunnudegi. Eitthvað var um að íbúar hefðu ekki fengið bílapassa og vísaði lögreglan því til Senu.
Frumtilgangurinn að koma tónleikagestum fljótt og örugglega til og frá svæðinu virðist hafa gengið vel. Bílastæði við Smáralind voru þéttsetin og raðir í strætisvagna sem komu mjög ört að tímabundnu stoppistöðinni sem þar var komið upp. Strætisvagnasamgöngurnar virkuðu mjög vel og ferðatíðnin var mjög ör. Talsverð umferð var á göngustígum, einkum Landamærastígnum svonefnda sem liggur milli Kópavogs Seljahverfis.
Eftirmálar
Tónleikahaldarar voru afar ánægðir og voru æstir í að endurtaka leikinn með aðra stórtónleika í Kórnum.
Gestir voru misánægðir. Sviðið var ekki mjög hátt uppi og þeir sem voru á gólfinu sáu margir hverjir ekkert af tónleikunum sjálfum á sviðinu nema þeir kveiktu á símum sínum og horfðu á útsendinguna þar. Upplifunin þótti þó frábær og listamaðurinn stóð við sitt og rúmlega það.
Fyrirspurn Sigurjóns Jónssonar á fundi bæjarráðs kom skriðu á önnur mál. Boðsmiðarnir, sem bæjarstjóri bað Senu um til að geta metið framkvæmdina í eigin persónu ásamt öðrum bæjarfulltrúum, mökum og nokkrum bæjarstarfsmönnum, eru líklega brot á siðareglum bæjarins og setja núverandi bæjarráð í vanda þegar næsti tónleikahaldari biður um leyfi fyrir atburði í Kórnum.
Bæjarstjóri var svo tregur til að upplýsa leiguverðið þó að meirihlutinn hafi sett opið bókhald ofarlega í málefnasamningi sínum. Svarið fékkst þó að lokum og var áætlaður gróði af atburðinum 5,5 milljónir. Þetta er gróði upp á 550 krónur per íbúa sem voru litamerktir.
Þetta mál þarf að skoða aftur frá öllum hliðum. Kórinn er frábært mannvirki og það stórt að hann er enn ekki kominn í fulla notkun. En þetta er stórt mannvirki með sárafá bílastæði á vondum stað, umkringdur þéttri íbúabyggð fleiri kílómetra í hvora átt. Hvenær er réttlætanlegt að
atburður einkafyrirtækis loki hverfum þar sem 10.000 íbúar búa? Hversu oft er hægt að réttlæta það? Er það sjálfsagt að það sé árlegur atburður? En fjórum sinnum á ári? Hvert er langlundargeð íbúa og annara sem ætla að nota þessar samgönguæðar?