Heitasta málið í heita pottinum í Kópavogi þessa dagana er án nokkurs vafa útboðið á líkamsræktaraðstöðinni í sundlaugum bæjarins sem rataði í fréttir nýverið. Ef tilboði WC (World Class) verður tekið mun það leiða til umtalsverðra hækkana strax fyrsta árið (um 17.000 kr.) og leiða má að því líkur að það muni hækka enn meira eftir fyrsta árið til samræmis við árgjald WC í öðrum líkamsræktarstöðvum þeirra sem er í dag 79.900 kr.
Kópavogsbúar og aðrir sem hafa nýtt sér þjónustu Gym og sundlauganna sjá því hugsanlega fram á 40.000 króna hækkun (um 100%) á líkamsræktar- og sundkortinu á næstu árum. Eflaust munar einhvern um minna. Fregnir af þessu hafa leitt til undirskriftarsöfnunur þar sem fjöldi bæjarbúar mótmæla þessu eindregið og ákafar umræður og deilur risið á vinnustöðum og (eðlilega) sérstaklega í heitu pottunum. Þar er mörgu slegið fram og stór orð látin falla.
Erfitt að afla óyggjandi upplýsinga um afskriftir
Einhverjir hafa haldið því fram að eigendur WC kunni að vera svokallaðir kennitöluflakkarar og hafi fengið 5-6 milljarða afskrifaða á undanförnum misserum. Sumt af þessu kann að vera orðum aukið og hreinlega rangt og er auðvitað ekki aðalatriði málsins þó það kunni vissulega að skipta einhverju máli. Erfitt er að afla sér óyggjandi upplýsinga um þessi mál og þegar svo er grípur maður gjarnan til Herra Google.is og reynir að feta sig áfram. Á hinum ágæta vef wikipedia.org er að finna upplýsingar um afskriftir á fyrirtækjum og einstaklingum eftir hrun. Þar stendur meðal annars um afskriftir:
World Class – um 1 milljarð – 2009 – Ath. World Class-eigendurnir, Björn Leifsson og Hafdís Jónsdóttir, stofnuðu nýja kennitölu undir reksturinn. Eignum var skotið inn í hið nýja félag og skuldirnar skildar eftir í því gamla. Þær skuldir voru nærri milljarði íslenskra króna.
Rekstrarfélagið Þrek kaffi ehf. (fyrir kaffihús í World Class) – um 120 miljónir – 2013 – Þrek kaffi ehf. var í eigu bræðranna Björns Leifssonar, eiganda World Class, og Sigurðar J. Leifssonar. Enn er þó rekið kaffihúsi í líkamsræktarstöðinni sem heitir Laugar veitingar og er í eigu Björns Leifssonar og eiginkonu hans Hafdísar Jónsdóttur.
Eins og áður segir er erfitt að staðreyna þessar upplýsingar, þetta kann að vera minna eða meira; eða einfaldlega rangt. En hefur a.m.k. ekki verið véfengt svo mér sé kunnugt um.
1.100 milljónir er kannski ekki svo mikið í stóra samhenginu eða ef miðað er við suma aðra aðila er stunda eða stunduðu sína starfsemi að einhverju leiti innan sveitarfélagsins. Til að setja þetta í eitthvað samhengi eru hér tekin dæmi af handahófi af sömu vefsíðu:
Saxhóll og Bygg – áætlað 100 milljarða – 2011 – Landsbankinn, Íslandsbanki og Arion banki – Ath. Verktakafyrirtækið Bygg er í eigu Gunnars Þorlákssonar og Gylfa Héðinssonar og Saxhóll fjárfestingarfélagi Nóatúnsfjölskyldunnar.
Verslunarfélagið Hagar hf. – milli 35 og 40 milljarða – 2011 – Arion banki – . Heildarupphæð afskrifta Arion banka árið 2011 vegna viðskipta hans við Jón Ásgeir Jóhannesson og fjölskyldu varðandi verslunarfélagið Haga nam milli 35 og 40 milljörðum króna
Magnús Kristinsson – 50 milljarða – Landsbankinn – 2010 – Magnús Kristinsson, útgerðarmaður í Vestmannaeyjum, fékk stóran hluta af tæplega 50 milljarða króna skuld eignarhaldsfélaga hans afskrifaðan eftir að hann samdi við skilanefnd Landsbankans.
Eins og þið sjáið þá er milljarður kannski ekki upp í nös á ketti. – Ég veit ekki hvort það er réttmætt að kalla það kennitöluflakk að stofna nýja kennitölu um reksturinn og skjóta eignum inn í nýja félagið og skilja skuldirnar eftir í því gamla. Ég hef ekki hundsvit á því. En. Hvað sem afskriftum og meintu kennitöluflakki líður þá er þetta auðvitað ekki aðalatriði málsins heldur tilboðið sjálft. Margir m.a. eigandi WC og einhverjir af stjórnendum bæjarins þar á meðal bæjarstjóri Ármann Kr. Ólafsson hafa látið að því ligga og talað fyrir því að bærinn eigi og sé í raun tilneyddur til að taka tilboði WC vegna þess að það sé hagstæðara fyrir bæinn. WC býður einfaldlega betur. Þessu hefur verið haldið fram áður en tilboðsgögn hafa verið lögð fyrir bæjarstjórn og kjörna fulltrúa sem ber að taka ákvörðun í málinu, áður en tilboðin hafa verið skoðuð til hlýtar og hvað í þeim í raun felst. Nú hefur málið ekki verið lagt formlega fyrir hvorki framkvæmdaráð né bæjarráð en engu að síður; mikið af þessum upplýsingum hafa komið fram í fjölmiðlum á síðustu dögum þannig að tölurnar liggja nokkuð ljósar fyrir.
Tilboð Gym mun hagstæðara
Eftir að hafa kynnt mér málið út frá þeim gögnum sem ég hef séð, get ég ekki komist að annarri niðurstöðu en þeirri, að tilboð Gym sé mun hagstæðara fyrir Kópavogsbæ í krónum talið. Í því samhengi tek ég ekkert tillit til þeirrar góðu reynslu og þjónust sem bærinn og íbúarnir hafa notið síðustu 17 árin í sundlaugunum, heldur lít ég einungis til þeirra tekna í peningum sem sundlaugarnar koma til með að njóta í sínum rekstri.
Þar sem skilur í milli í tilboðum WC og Gym er annarsvegar fasta leigan (þar er tilboð Gym um 7 milljónum kr. hærra fyrir árið) og hins vegar greiðsla fyrir hverja heimsókn í stöðina en þar er tilboð WC rúmum 12 milljónum hærra sé miðað við 270.000 heimsóknir á ári. Þar liggur í raun hundurinn grafinn. Talan „270.000 heimsóknir“ er nefnilega miðuð við 17 ára farsæla viðskiptasögu og samstarf Sundlauga Kópavogs og Gym sem hafa boðið upp á ódýra líkamsrækt með aðgangi að sundlaugunum og nýst hefur íbúum Kópavogs afar vel til bættrar heilsu. Viðskiptavild Gym til 17 ára. Það er því afar óraunhæft að gefa sér að WC geti á fáum árum byggt upp jafn stóran hóp ánægðra viðskiptavina, sér í lagi ef árskortin hækka mikið í verði. Það má hins vegar færa sterk rök fyrir því að Gym geti haldið í horfinu og jafnvel bætt í.
Ef heimsóknum myndi fækka um 15% , sem er varlega áætlað ef tilboði WC yrði tekið er tilboð Gym strax orðið hagstæðara. Í raun felst ákveðinn hvati fyrir WC í áætluðu fyrirkomulagi að fækka heimsóknum í líkamsræktina og hækka verð árskorta. Það getur alls ekki talist hagfellt hvorki fyrir rekstur sundlauganna né bæjarbúa.
Miðað við þau hörðu viðbrögð sem þessi fyrirætlan hefur fengið er ekki óraunhæft að ætla að heimsóknum í líkamsrækt Sundlauga Kópavogs muni fækka um allt að helming verði tilboði WC tekið. 135.000 heimsóknir þýða minni tekjur fyrir sundlaugarnar upp á ca. 40 milljónir. Þar sem Gym býður 7 milljónum hærra í leigu gæti munurinn á tilboðunum orðið nálægt 35 milljónum . Þegar málið er skoðað betur, rýnt í tölurnar og forsendur tilboðsins, bendir því margt til þess að tilboð Gym sé talsvert hagstæðara fyrir Kópavogsbæ, rekstur sundlauganna og fyrst og fremst fyrir íbúa Kópavogsbæjar.
Ef svo fer að WC komi til með að reka líkamsrækt í Sundlaugum Kópavogs kunna einhverjir að velta því fyrir sér hvort þetta ágæta líkasræktarfyrirtæki sé ekki komið með yfirburðastöðu á þessum litla markaði. Ráðandi stöðu sem geti hamlað eðlilegri samkeppni í greininni. Að á næstu árum muni rigna inn kærum og kvörtunum frá smærri líkamsræktarstöðvum sem eru að kikna undir ofurefli WC-risans? Að okkar bíði tímabil sífelldra deilna við samkeppnisyfirvöld vegna þessa máls? En það er önnur saga.
Vandræðaleg þögn bæjarstjóra
Á síðasta fundi bæjarstjórnar Kópavogs kom fram í máli sumra bæjarfulltrúa að útboðsgögn hefðu ekki verið rétt sett fram eða nægilega vel unnin og þá sérstaklega sú reikniregla sem notuð er til að meta hagkvæmni hvers tilboðs og þar af leiðandi væri útkoman skökk. Þau mistök væru hinsvegar alfarið á ábyrgð bæjarfulltrúa; að kynna sér ekki útboðsgögnin til hlýtar og gera athugasemdir áður en til auglýsingar kæmi. Þetta kann að vera rétt að ábyrgð bæjarfulltrúa er mikil í þessu máli en engu að síður er það bæjarstjóri sem ber ábyrgð á allri framkvæmd þeirra ákvarðana sem teknar eru í bæjarstjórn og andvaraleysi og sofandaháttur hans í þessu máli er langt því frá að vera til fyrirmyndar. Af málflutningi hans mætti ætla að hann telji það til hagsbóta fyrir bæjarbúa að greiða 50% HÆRRA verð í líkamsrækt um leið og sundlaugarnar verða af umtalsverðum tekjumissi allt að 30 milljónir kr. Þögn bæjarstjóra Ármanns Kr. Ólafssonar í þessu hagsmunamáli bæjarbúa er með eindæmum vandræðaleg fyrir hann en um leið dapurleg fyrir Kópavogsbæ.
Ef mistök kunna að hafa verið gerð í umræddu útboði er hreinlegast að leiðrétta þau að mínu mati. Það er hins vegar ekki meginatriði þessa máls. Eftir stendur, eins og ég hef sýnt fram á hér að framan, þá er tilboð Gym hægstæðara að flestu leiti þegar grannt er skoðað.
Fulltrúi Næstbestaflokksins í bæjarstjórn mun vinna að því af bestu samvisku að fara vel og vandlega yfir tilboðsgögnin þegar þau verða lögð fyrir bæjarfulltrúana til afgreiðslu og tryggja að hagsmunum bæjarins sé gætt. Markmiðið er skýrt. Að bjóða íbúum Kópavogs áfram upp á aðstöðu til líkamsræktar í sundlaugum bæjarins á viðráðanlegum kjörum. Það er beinlínis okkar skylda í þeirri viðleitni að standa við markmið bæjarins um lýðheilsu og á það ekki síst við um elsta aldurshópinn. Einsog er njóta 67 ára og eldri afsláttar af líkamsræktar og sundkortum og engin trygging fyrir því að svo verði áfram, fer sem horfir. Mín trú er sú, að ef vilji er fyrir hendi þá getum við klárað þetta mál í sátt við bæjarbúa og samkeppnisyfirvöld sömuleiðis. Allir bæjarfulltrúar verða að koma að þeirri vinnu. Núverandi bæjarstjóri Ármann Kr. Ólafsson er ekki bógur í það.
Hjálmar Hjálmarsson, fulltrúi Næstbestaflokksins í bæjarstjórn Kópavogs.