Leifur Breiðfjörð sýnir ný málverk og vatnslitamyndir sem hann hefur unnið á allra síðustu árum í safnaðarheimili Kópavogskirkju, Borgum, um helgina.
Einnig er á sýningunni sérstök myndröð, 17 vatnslita og pastelmynda, sem byggðar eru á efni Opinberunarbókarinnar, myndir sem á vissan hátt tengjast steindum glugga á vesturhlið Hallgrímskirkju sem Leifur gerði árið 1999, meðal annars með fjórblaðaforminu sem leiðarstefi og heldur utan um allar myndirnar í röðinni. Myndaröðin var fyrst sýnd við vígslu steinda gluggans á vesturhlið Hallgrímskirkju í desember árið 1999.
Miðvikudaginn 15.október verður frumsýnd hjá Rúv heimildarmynd um Leif Breiðfjörð. Myndin ber heitið LITIR LJÓSSINS í gerð Jóns Þórs Hannessonar og Hauks Haraldssonar líkt og sýningin í safnaðarheimili Kópavogskirkju, Borgum (skáhalt gegnt Gerðarsafni).
Sýningin verður opnuð sunnudaginn 12. október eftir guðsþjónustu sem hefst kl. 11:00 í Kópavogskirkju. Sýningin stendur til áramóta, hún er opin virka daga á milli 09:00-13:00 eða eftir samkomulagi. Sýningin stendur til 12. janúar 2015. Allir eru velkomnir.
Leifur Breiðfjörð er fæddur í Reykjavík árið 1945. Hann stundaði nám við Myndlista og handíðaskóla Íslands og framhaldsnám í myndlist og steindu gleri við Edinburgh College of Art. Hann hefur unnið við myndlist og gerð steindra glerlistaverka síðan 1968.
Hann hefur gert steinda glugga í fjölmargar opinberar byggingar og kirkjur bæði hér á landi og erlendis. Þekktustu verk hans erlendis er stór steindur gluggi í St. Giles dómkirkjunni í Edinborg og steindur gluggi í Southwark dómkirkjunni í Lundúnum. Meðal stærri listaverka Leifs hér á landi eru steindir gluggar fyrir Hallgrímskirkju, Bústaðarkirkju, Fella- og Hólakirkju, Grafarvogskirkju og stór glerlistaverk fyrir Flugstöð Leifs Eiríkssonar og Grand Hótel í Reykjavík.
Leifur hefur haldið margar einkasýningar og tekið þátt í fjölda samsýninga hér á landi og erlendis. Hann hefur bæði haldið sýningar á steindu gleri, olíumálverkum, vatnslita og pastelmyndum. Verk eftir hann er að finna í öllum helstu listasöfnum hér á landi.
Leifur hefur í samvinnu við konu sína og aðstoðarmann Sigríði Jóhannsdóttir unnið veflistaverk og skrúða fyrir kirkjur, þau hafa haldið margar einkasýningar og tekið þátt í samsýningum.