Ljóðstafur Jóns úr Vör var afhentur í 17. sinn við hátíðlega athöfn í Salnum á afmælisdegi skáldsins þann 21. janúar. Alls bárust 302 ljóð í keppnina en jafnframt voru úrslit í Ljóðasamkeppni grunnskóla Kópavogs kunngjörð en 170 ljóð bárust frá grunnskólabörnum.
Handhafi Ljóðstafsins árið 2019 er Brynjólfur Þorsteinsson sem fæddur er 1990. Um ljóð hans Gormánuður segir dómnefnd m.a.: „…dregur fram íslenskan hversdag sem birtist dularfullur og margræður, þar sem samruni náttúru og líkama myndar óljós og áhugaverð mörk milli heima“. Dómnefnd skipuðu Bjarni Bjarnason formaður, Ásdís Óladóttir og Ásta Fanney Sigurðardóttir.
Í öðru sæti var Margrét Lóa Jónsdóttir fyrir ljóðið Allt sem lifir deyr og þriðja sætið hlaut Elías Knörr fyrir ljóðið Sunnudögum fækkar með sérhverri messu!
Sérstaka viðurkenningu hlutu auk þess ljóðskáldin Eyrún Ósk Jónsdóttir, Dagur Hjartarson, Arndís Þórarinsdóttir, Vilhjálmur B. Bragason, Hjörtur Marteinsson og Björk Þorgrímsdóttir.
Hlutskörpust í grunnskólakeppninni var Katrín Valgerður Gustavsdóttir sem var verðlaunuð fyrir ljóðið Súðavík en hún er nemandi í 10. bekk Kárnsesskóla. Í öðru sæti var nemandi í 6. bekk Hörðuvallaskóla, Örn Tonni Ágústsson Christensen fyrir ljóðið Englar og í þriðja sæti Margrét Hrönn Róbertsdóttir í 10. bekk Kársnesskóla fyrir ljóðið Hæ.
Þá hlutu sjö nemendur sérstaka viðurkenningu en þau eru: Daníel Ingi Þorvaldsson 5. EP Snælandsskóla, Elmar Daði Ívarsson 6. L Hörðuvallaskóla, Emilíana Unnur Aronsdóttir 9.X Kársnesskóla, Hrenfa Lind Grétarsdóttir í 7. A Álfhólsskóla, Margrét Hrönn Róbertsdóttir í 10. H Kársnesskóla, Snorri Sveinn Lund í 6. L Hörðuvallaskóla og Urður Matthíasdóttir í 9. Krækilingi Vatnsendaskóla.
Við athöfnina fluttu Hildigunnur Einarsdóttir mezzósópran og Guðrún Dalía Salomónsdóttir píanóleikari lög Þorkels Sigurbjörnsson við ljóð Jóns úr Vör.
Rökstuðningur dómnefndar um ljóðið Gormánuður eftir Brynjólf Þorsteinssonar handhafa Ljóðstafs Jóns úr Vör 2019:
„Vinningsljóðið í keppninni um Ljóðstaf Jóns úr Vör 2019 dregur fram íslenskan hversdag sem birtist dularfullur og margræður, þar sem samruni náttúru og líkama myndar óljós og áhugaverð mörk milli heima. Skáldið fer með lesandann í tímaflakk með fyrsta orði en titillinn Gormánuður er upphafsmánuður vetrar og vísar til sláturtíðar samkvæmt forna norræna tímatalinu. Innvols dýrs verður uppdráttur að morgundegi sem er hugsanleg veðurspá í gömlum göldrum, við erum minnt á að einblína á fjaðursortann, stara inn í myrkrið, kryfja gat sem er munnur þar sem orðin myndast og þar lesum við í framtíðina með dauðanum sem bíður okkar, heyrum áminningu um brothætt líf eða ást sem sundrast jafn auðveldlega og ber undir tönn. Hið unga skáld fléttar listilega saman andstæðum þar sem ljós og sorti, fortíð og nútíð mynda meistaralega smíðaða heild sveipaða myndríkri dulúð.“
Gormánuður eftir Brynjólf Þorsteinsson handhafa Ljóðstafsins 2019
allir hrafnar eru gat
líka þessi sem krunkar
uppi á ljósastaur
eins og brot
í himingrárri tönn
sjóndeildarhringurinn nakin tré
skorpin vör
pírðu augun
einblíndu á fjaðursortann
það glittir í úf
allir hrafnar eru gat
og innvolsið uppdráttur að morgundegi
líka í þessum sem krunkar
uppi á ljósastaur
lestu hann
með vasahníf og opinn munn
hjartað springur
eins og ber undir tönn
bragðið er svart
Katrín Valgerður Gustavsdóttir 1. sæti 10. bekk Kársnesskóla, hlaut 1. sæti í grunnskólakeppni fyrir ljóðið Súðavík
Súðavík
Myrkur
Kílómetrum saman
Smýgur á milli minnstu glufa og sest á
fingurgóma mína
Þögnin
Svo ógurlega hávær
Borar sig inn í heilann á mér
og vekur hjá mér ónotatilfinningu
Undarlega hughreystandi
og glottir út í annað
Kuldinn
Eins og löðrungur beint í andlitið
og einu sannindin um að þetta sé ekki yfirstaðið
Með hverri sekúndu sem líður
rennur burtu sandkorn af von.
Jón úr Vör
Jón úr Vör fæddist á Vatneyri við Patreksfjörð 21. janúar 1917 en starfaði lengst af í Kópavogi þar sem hann var hvatamaður að stofnun bókasafnsins og síðar fyrsti bæjarbókavörður bæjarfélagsins. Jón starfaði að menningarmálum með ýmsum hætti, var til dæmis bæði bóksali og ritstjóri, en fyrst og fremst var hann brautryðjandi í íslenskri ljóðagerð. Fjölmargar ljóðabækur hans lifa með þjóðinni og ber þá helst að nefna óð hans til æskustöðvanna, ljóðabálkinn Þorpið. Jón úr Vör lést 4. mars árið 2000 og frá árinu 2002 hefur Lista- og menningarráð Kópavogsbæjar afhent Ljóðstaf Jóns úr Vör á fæðingardegi skáldsins.