Loks innleiðir Kópavogur heimsmarkmið Sameinuðu þjóðanna um aðgerðir í loftslagsmálum. Á nýlegum fundi bæjarráðs var ákveðið að taka inn þetta mikilvæga markmið í yfirmarkmið bæjarstjórnar Kópavogs og eru það góð tíðindi í baráttunni við loftslagsbreytingar.
Sveitarfélög landsins bera höfuðábyrgð þegar kemur að loftslagsmálum og hafa þau gríðarmikil tækifæri til þess að bregðast við, bæði sem vinnuveitandi og stjórnvald. Hlýnun jarðar er ekki flokkspólitískt mál, það er staðreynd sem við verðum að sameinast um að berjast gegn og gera það sem í okkar valdi stendur til þess að forða hamförum. Það er ástæða þess að ég hef barist fyrir því að innleiða þetta heimsmarkmið sem nú er að verða að veruleika. Næstu skref eru að vinna málið áfram í góðri sátt og samvinnu allra bæjarfulltrúa. Skýr framtíðarsýn er forsenda breytinga. Nú hefst brátt vinnan við fjárhagsáætlun og höfum við því kjörið tækifæri til að ákveða hvert við stefnum og hvernig við getum notað fjármuni sveitarfélagsins í hag umhverfisins og framtíðarinnar.
Hér er tækifæri til að gera Kópavog að fyrirmyndarsamfélagi með sjálfbærni að leiðarljósi.