Leikhópurinn Lotta sýnir nýjan íslenskan söngleik um tröllskessuna Gilitrutt á Rútstúni í Kópavogi 25. maí kl. 14:00. Miðaverð er 1.500 kr. og eru miðar seldir á staðnum. Gilitrutt er skrifað af Önnu Bergljótu Thorarensen, sem skrifar nú sitt þriðja verk fyrir hópinn. Hér blandar hún ævintýrunum um Búkollu, geiturnar þrjár og tröllskessuna Gilitrutt saman í splunkunýtt og sprellfjörugt leikrit.
Í verkinu eru tólf frumsamin lög eftir fjóra höfunda, Björn Thorarensen, Gunnar Ben, Helgu Ragnarsdóttur og Baldur Ragnarsson. Þetta er sjöunda árið sem hópurinn ferðast með sýningar sínar um landið.
Verkið fjallar um sprenghlægileg uppátæki tröllskessunnar Gilitruttar og bróður hennar Bárðar sem finnst erfitt að skilja að tröllin skuli þurfa að vera svona vond. Gilitrutt sjálfa leikur Sigsteinn Sigurbergsson en hann ætti að vera börnum að góðu kunnur úr Stundinni okkar þar sem hann hefur verið fastagestur síðustu 3 ár.
Leikstjóri sýningarinnar er Ágústa Skúladóttir sem hefur sett mark sitt á íslenskt leikhúslíf með uppsetningum sínum á Grímusýningunum Klaufum og kóngsdætrum og Bólu Hjálmari, Dýrunum í Hálsaskógi, óperunni Töfraflautunni eftir Mozart sem var opnunarsýning Íslensku Óperunnar í Hörpu, Ævintýri Múnkhásens og hinnar óviðjafnanlegu sýningar Hjartaspaðar sem Gaflaraleikhúsið sýndi við miklar vinsældir í vetur. Hún hefur í liði með sér búningahönnuðinn Kristínu R. Berman sem m.a. hannaði búninga í hinum rómuðu sýningum „Segðu mér Satt“, „Jónsmessunótt“ og „Stígvélaða Kettinum“ á síðasta ári.
Gilitrutt er tröllskessa og hún er sífellt að reyna að lifa drauminn, að vera ægilega góð í því að vera vond. En Bárður bróðir hennar er sífellt að skemma það fyrir henni með klaufaskapnum og óþolandi góða hjartanu sínu. Kýrin Búkolla og Þóra vinkona hennar búa saman á bænum Bakka þar sem Freyja, móðir Þóru og Þór bróðir hennar gera þeim lífið leitt með yfirgangi og skepnuskap. Geiturnar þrjár leggja á ráðin um að fara yfir brúna sem Gilitrutt gætir því grasið er svo miklu grænna hinu megin. Þessi þrjú sígildu ævintýri blandast saman í heljarinnar glens og gaman, söng og dans fyrir börn á öllum aldri. Sýningar Lottu hafa orð á sér fyrir að vera sérstaklega fullorðinsvænar barnasýningar og Gilitrutt ætti sannarlega ekki að svíkja aðdáendur Lottu í þeim efnum.
Hópurinn hefur skapað hraða og eldfjöruga sýningu þar sem allt er mögulegt og tónlist, söngur og dans miðla sögunni í bland við hið talaða orð. Þetta er fjörmikið og sprenghlægilegt leikverk sem allir geta notið.
Aðstandendur eru:
Höfundur: Anna Bergljót Thorarensen
Leikstjóri: Ágústa Skúladóttir
Leikmynd: Guðjón Þorsteinn Pálmarsson og hópurinn
Búningar: Kristína R. Berman
Tónlist: Baldur Ragnarsson, Björn Thorarensen, Gunnar Ben og Helga Ragnarsdóttir
Upptökur: Flex Árnason
Leikarar: Andrea Ösp Karlsdóttir, Anna Bergljót Thorarensen, Baldur Ragnarsson, Björn Thorarensen, Helga Ragnarsdóttir, Rósa Ásgeirsdóttir, Sigsteinn Sigurbergsson, Stefán Benedikt Vilhelmsson, Sumarliði V. Snæland Ingimarsson