Nú þegar haustið gengur í garð og skólar hefjast á ný uppgötvast lúsasmit í mörgum kollum. Viðbrögð í leik- og grunnskólum við því er að senda forráðamönnum barna bréf til að láta vita af smiti í umhverfi barnanna og óska eftir að þeir kembi hár barnanna og annarra í fjölskyldum þeirra og bregðist við með viðeigandi aðferðum ef höfuðlús finnst í hári. Mjög mikilvægt er að allir bregðist við slíkum beiðnum og kembi alla fjölskyldumeðlimi.
Á vef Landlæknisembættisins kemur fram að á síðasta skólaári virtist vera mjög mikið um höfuðlús í hári skólabarna landsins. Miðstöð skólaheilsugæslu höfuðborgarsvæðisins fékk tilkynningar um 327 höfuðlúsatilfelli hjá 309 barni en það bendir til að einhverjir greindust endurtekið með höfuðlús. Þessi fjöldi skráðra tilfella er fimmföld aukning frá skólaárinu þar áður. Í skólahverfum með flest tilkynnt smit voru 2% nemenda með höfuðlúsarsmit.
Sala lúsadrepandi efna í lyfjaverslunum er líklega besta vísbendingin um hversu mikið er um höfuðlúsarsmit á hverjum tíma því margir kjósa að nýta slík efni til að drepa höfuðlús í hári. Örar framfarir hafa orðið í framleiðslu slíkra efna og eru nú komin á markað nokkur efni sem aðeins þarf að setja einu sinni í hárið til að ráða niðurlögum allra lúsa í hárinu. Eldri gerðir af efnum þarf að setja tvisvar sinnum í hárið, með viku millibili, til að efnin nái að eyða lúsum sem voru inni í eggjum (nit) við fyrri meðferðina.
Samkvæmt birtum klínískum rannsóknum næst góður árangur með þessum nýju efnum. Á vef Landlæknisembættis er vitnað í heildsala lúsadrepandi efna sem segir sölu efnanna hafa aukist mikið síðastliðinn vetur og hún sé enn að aukast. Salan minnkaði lítið eitt yfir sumarið en hefur nú aukist aftur í fyrra horf.
Æskilegast er að allir, börn og fullorðnir, kembi hár sitt reglulega með lúsakambi til að koma í veg fyrir dreifingu smits ef lús skyldi finnast í hárinu.
www.landlaeknir.is
Facebook
Instagram
YouTube
RSS