
Þegar við fögnum sögunni og sjálfstæði er hollt að horfa til framtíðar og hugsa um hvað við ætlum að gera núna sem fagnað verður í framtíðinni. Hvað getur verið betra en að vinna að betri framtíð með fólkinu sem mun njóta hennar. Ungmennaráð er gríðarlega öflugt tækifæri fyrir næstu kynslóð Íslendinga til þess að hafa áhrif á tækifæri framtíðarinnar en í Kófi dagsins í dag er framtíðarsýnin dálítið óljós.
Nýlega fundaði bæjarstjórn með ungmennaráði Kópavogs þar sem þau lögðu fram tillögur sem þau höfðu unnið í framhaldi af ungmennaþingi. Í einni tillögunni var fjallað um mikilvægi þess að auka og samræma kennslu í fjármálalæsi, í bæði grunn- og framhaldsskólum. Í framhaldi af því sendi ég fyrirspurn á menntaráð og bað um samantekt á kennslu fjármálalæsis sem nú þegar er til staðar í Kópavogi, sundurliðað fyrir hvern skóla, sem við getum svo unnið út frá þegar við hittumst aftur í haust. Ef það er eitthvað sem núverandi ástand ætti að kenna okkur er að framtíðin þarf að vera byggð á sjálfbærni. Fjárhagslegri sjálfbærni, umhverfislegri og lýðræðislegri.
Albert Einstein sagði einu sinni að vaxtavextir væru máttugasta afl í heiminum og kallaði þá áttunda undur veraldar. Þau sem skilja þá, græða á þeim og þau sem skilja þá ekki greiða fyrir það.
Þegar ég var í grunnskóla var ekkert fjallað um þetta áttunda undur veraldar, en þeim mun meira fjallað um þessi klassísku sjö. Ekki var heldur fjallað um annan fasta mannlegrar tilveru, eins og gerð skattframtals, hvað þá húsnæðislán. Samt eru þetta griðarlega mikilvægir hlutir í samfélaginu okkar.
Fjármálalæsi þarf að kenna ungmennum áður en þau verða fjárráða. Alveg eins og maður þarf próf til að keyra vörubíl áður en maður byrjar að keyra hann út um allan bæ. Fjármálalæsi er ekki bara nauðsynlegt fyrir skattframtöl og húsnæðiskaup heldur er fjármálalæsi nauðsynlegur hluti af lýðræði nútímans. Við þurfum að skilja áhrif vaxta og vaxtavaxta í lýðræðislegri umræðu um verðtryggingu og lán. Við þurfum að þekkja skuldbindingar og ábyrgðir og við þurfum að fá að æfa okkur áður en við tökumst á við þær áskoranir í alvörunni. Þess vegna er tillaga ungmennaráðs nauðsynleg og góð.
Lýðræði gerist ekki sjálfkrafa. Samfélagssáttmálinn byggist á samtali, samþykki og samvinnu. Eflum kennslu um lýðræði, heimspeki og samfélagsmál og þjálfun í gagnrýnni hugsun og lýðræðislegum vinnubrögðum á öllum skólastigum. Því lýðræðið er miklu meira en bara kosningar. Það snýst um virka þátttöku allra. Líka þeirra sem eru ekki með kosningarétt því framtíðin er þrátt fyrir allt þeirra.
Gleðilega þjóðhátíð!