Nú erum við að reyna, ég segi reyna að leiða til lykta hvar við ætlum að hafa húsnæði undir stjórnsýslu Kópavogs. Eftir margra mánaða vinnu, tíma og fjármagn sem eytt hefur verið í að greina skynsamlegustu kostina var komið í veg fyrir að ákvörðun yrði tekin á síðasta bæjarstjórnarfundi.
Niðurstöður starfshóps um málið voru alveg skýrar, það þótti ekki skynsamlegt í ljósi þess þensluástands sem er í þjóðfélaginu og þess bráðavanda sem steðjar að húsnæði stjórnsýslunnar að fara í byggingu ráðhús. Það þótti einsýnt að best væri að annað hvort gera upp núverandi húsnæði eða setjast að samningaborði við annanhvorn þegar byggðan turninn í Kópavogi. Haldin var íbúafundur og keypt-ur rýnihópur til þess að kynna og greina þessa kosti enn frekar.
En málið var tafið enn og aftur svo hægt væri að kanna illa hugsaða hugmynd þess efnis að troða 3000 fm bygginu á bílastæði Molans. Ofan í kverkarnar á menningarhúsunum, kirkjunni, safnaðarheimilinu og þeim íbúum sem þegar búa þétt við húsið. Alger farsi og sett fram til þess að tefja málið.
Að mínu mati tel ég ekki skynsamlegt í nútímasamfélagi að ráðast í að reisa einhverskonar minnisvarða um valdastofnun Kópavogs sem helst ætti að einbeita sér að því að veita góða þjónustu frekar en að vera reisa veggi utan um sjálfa sig. Við erum bara að tala um hús, vinnustað sem veitir Kópavogsbúum þjónustu sem á henni þurfa að halda. Gæði þjónustunnar skiptir mun meira máli heldur en táknmynd stjórnsýslunnar.
Afstaða mín til málsins er fjárhagsleg og hugsuð til langs tíma. Vissulega er hún umdeild, en umdeildar ákvarðanir taka oft langan tíma að sanna gildi sitt. Ég sé fyrir mér að Fannborgarreiturinn muni frekar efla nágrenni sitt með íbúabyggð heldur en þurru stjórnsýsluhúsnæði sem lokar kl 17. Það er hægt að skipuleggja hann og verðleggja á þann veg að flutningur skrifstofunnar í annað húsnæði verður ekki klafi á bæjarsjóði til langs tíma. Alls ekki. Helsti ábatinn er samt að loks gæti verið hægt að græða þetta bil sem skilur að vestur og austurbæ Kópavogs með fallegri íbúabyggð sem mun efla nágrenni sitt.
Mér hefur verið bent á að ég taki ekki tillit til tilfinningalegra þátta sem lúta að Fannborgarreitnum. Það má vel vera að það sé rétt en ég spyr; væri ég trúverðug sem bæjarfulltrúi ef ég byggði mínar ákvarðanir á tilfinningingalegu svigrúmi fárra, frekar en þeim fjárhagslega ábata og framtíðarsýn sem flutningur gæti haft í för með sér!
Ég mun að sjáflsögðu una hvaða niðurstöðu sem fæst í þetta mál, eina sem ég vil er að þessu máli fari að ljúka svo að óviðunandi vinnuaðstæður verði færðar í rétt horf sem fyrst.