Málþing um hjóla- og göngustíga verður haldið í Salnum í Kópavogi í fyrramálið, 31. maí, frá klukkan 9 til 13.
Megin viðfangsefni málþingsins er að ræða þær áskoranir sem fylgja aukinni umferð á hjóla- og göngustígum og leiðir til að bæta sambýli ólíkra notenda. Velt verður upp mögulegum leiðum til úrbóta sem snerta flokkun, útfærslur og umgjörð stígakerfisins ásamt þeim hindrunum sem kunna að vera á leiðinni.
Málþingið er liður í áformum sveitarfélaganna á höfuðborgarsvæðinu að bæta aðstöðu virkra ferðamáta. Í kjölfarið mun vinnuhópur með aðkomu Vegagerðarinnar og annarra ríkisstofnanna móta samræmdar tillögur að lausnum fyrir höfuðborgarsvæðið.
Til máls taka: Ármann Kr. Ólafsson bæjarstjóri Kópavogs, Kolbrún Guðný Þorsteinsdóttir sérfræðingur hjá Samgöngustofu, Theodóra S. Þorsteinsdóttir formaður bæjarráðs Kópavogs, Einar Magnús Magnússon sérfræðingur hjá Samgöngustofu, Jónas Snæbjörnsson framkvæmdastjóri Vegagerðarinnar, Hrafnkell Proppé frá Samtökum sveitarfélaga á höfuðborgarsvæðinu og Þorsteinn R. Hermannsson samgöngustjóri Reykjavíkurborgar. Fundarstjóri er Kolbrún Guðný Þorsteinsdóttir.
Málþingið er samstarfsverkefni Kópavogsbæjar, Samtaka sveitarfélaga á höfuðborgarsvæðinu og Samgöngustofu.