Blikaklúbburinn og knattspyrnudeild Breiðabliks hafa ákveðið að ýta úr vör verkefninu ,,Málum bæinn grænan“. Það er að sjálfsögðu Málning h.f. sem er aðalstyrktaraðili þessa verkefnis enda er fyrirtækið eitt af dyggustu stuðningsaðilum knattspyrnudeildar Breiðabliks.
Verkefnið ,,Málum bæinn grænan“ (MBG) gengur út á að auka stuðning meðal almennra Kópavogsbúa við meistaraflokka Breiðabliks. Verkefnið byggir nokkuð á hugmyndum forráðamanna þýska knattspyrnuliðsins Borussia Dortmund. Þar tókst þeim á nokkrum árum að auka áhuga íbúa borgarinnar á knattspyrnuliðinu umtalsvert. Nú er alltaf uppselt á alla heimaleiki Dortmund og stemmningin í borginni og í stúkunni þykir ein sú besta í allri Evrópu. Í fyrsta áfanga verður fókusinn á meistaraflokk karla og verður markmiðið að á þremur árum fjölgi áhorfendum á heimaleikjum Breiðabliks að minnsta kosti um 10% á ári. Einnig að hinn almenni stuðningsmaður verði mun sýnilegri en áður.
Lýsing á verkefninu
Hugmyndin er að myndaðir verði margir litlir hópar stuðningsmanna í hinum ýmsu hverfum/götum Kópavogs. Hver og einn hópur gerir samning við knattspyrnudeildina/Blikaklúbbinn um að vera með einhvers konar uppákomu í sínu hverfi á leikdag. Þetta getur verið allt frá því að menn hittist skömmu fyrir leik og fari saman á völlinn upp í að menn skipuleggi grill og einhver skemmtiatriði fyrir leik í sínu heimahverfi. Deildin útvegar hverjum hóp Breiðabliksfána sem verður flaggað í viðkomandi hverfi á leikdegi. Hver hópur skuldbindur sig til merkja sig vel með grænum treyjum, fánum, veifum og húfum og mæta þannig á völlinn. Deildin sér til þess að tekið verði frá svæði í stúkunni og hver hópur situr saman á sínum stað. Í samvinnu við BlikarTV verður valinn stuðningsmannahópur leiksins og verður spjallað við meðlimi eftir leik. Með þessu verður vonandi hægt að koma á smá keppni milli hópa líkt og þekkist á körfuboltaleikjum í Bandaríkjunum.
Þeir aðilar sem hafa áhuga á því að taka þátt í þessu verkefni eru beðnir að setja sig í samband við Andrés Pétursson GSM: 699 2522 eða í netfangið andres@rannis.is.