Síðustu vikur hafa stórvirkar vinnuvélar verið notaðar til að breikka göngustíginn fyrir neðan Kópavogstún. Göngustígurinn er afar vinsæll hjá hlaupurum, hjólreiðamönnum og öðru útivistarfólki enda í nágrenni við helstu náttúruperlur Kópavogs.
Mikið jarðrask fylgir þessum framkvæmdum sem er í grennd við gamla þingstað Kópavogsfundarins. Um hlutverk Kópavogsþings og þýðingu í sögu þessarar þjóðar þarf ekki að fjölyrða. Vestan við þingstaðinn hafa og fundist leifar um kotbýli sem gæti verið frá 10. öld. Þorleifur Friðriksson, sagnfræðingur, bendir á að hér megi sjá móta fyrir gamla torfbænum sem stóð á sama stað um aldir. Hér er að finna dýrmæta þræði í híbýlasögu þjóðarinnar frá landnámstíð. Þetta er þess vegna afar viðkvæmt svæði og þarf við hvers konar framkvæmdir að gæta þess að stíga varlega til jarðar.
,,Mér finnst þessi mikla framkvæmd ,,breiðgata” um þetta land sem geymir miklar menningarminjar og mikla sögu, vera hálfgerð tímaskekkja og eins konar draugur frá 2007 í formi malbikaðs „breiðstrætis“ um Kópavogstún,“ segir Þorleifur. „Hvers konar framkvæmdir á þessum stað þurfa að haldast í hendur við framtíðarskipulag og framtíðarhlutverk þessa stórmerka svæðis. Vonandi hefur verið gerð ítarleg grunnrannsókn áður en farið var út í jarðrask á þessu viðkvæma svæði. Ég hefði kosið að hér myndi rísa safn um híbýlasögu íslenskrar alþýðu, frá upphafi þjóðar, sem yrði einstakt á heimsvísu og drjúgur skerfur til eflingar menningartengdrar ferðaþjónustu. Hvert óvarlegt skref sem hér er stigið gæti valdið óafturkræfum skaða,“ segir Þorleifur Friðriksson, sagnfræðingur.
Sigríður Björg Tómasdóttir, almannatengill Kópavogsbæjar, segir að ekki sé verið að raska neinum jaðvegi sem ekki hefur áður verið raskað.