Á fjórða hundrað ábendingar hafa borist til Kópavogsbæjar vegna samgöngustefnu, Nýju línunnar, sem nú er í vinnslu. Fimm íbúafundir hafa verið haldnir í tengslum við gerð stefnunnar. Þá var settur upp hugmyndavefur í tengslum við samgöngustefnuna sem verður opinn fram í janúar. Íbúar og aðrir áhugasamir eru hvattir til að koma ábendingum á framfæri þar.
Á vefnum hægt að velja hverfi og koma ábendingu á framfæri um það sem betur má fara í samgöngumálum, umferðaröryggi og í tengslum við almenningssamgöngur. Á fundunum var kallað eftir ábendingum í sömu efnisflokkum.
„Við ákáðum að prófa nýtt form á íbúafundum og það hefur gefist mjög vel. Fundirnir byrjuðu með stuttri kynning á stefnunni og í framhaldinu gafst þátttakendum kostur á að koma sínum ábendingum á framfæri á starfssstöðvum,“ segir Hjördís Ýr Johnson formaður umhverfis- og samgöngunefndar. „Við fengum virkilega góðar umræður og ábendingar frá íbúum sem eru auðvitað sérfræðingar í sínu nærumhverfi.“
Stefnt er að því að stefnan verði tilbúin í febrúar.
Slóð á hugmyndasíðu:
https://betraisland.is/community/728
Nánar um samgöngustefnu:
https://www.kopavogur.is/is/ibuar/samgongur/samgongustefna-i-motun