Margrét Friðriksdóttir, sem bauð sig fram í fyrsta sæti á lista Sjálstæðisflokksins í Kópavogi gegn Ármanni Kr. Ólafssyni, hefur ákveðið að þiggja 2. sætið á lista flokksins.
„Ég vil þakka þeim fjölmörgu sem studdu mig í prófkjöri sjálfstæðismanna í Kópavogi sl. laugardag. Þó ég hafi ekki náð markmiði mínu verður niðurstaðan að teljast góður árangur þar sem ég er að koma ný inn í stjórnmálin. Ég hef áhuga og metnað fyrir hönd Kópavogsbúa og vil af heilindum leggja mitt af mörkum til að vinna að málefnum bæjarfélagsins. Nú þurfum við að horfa til framtíðar og stilla upp sterkum og samhentum lista sjálfstæðismanna í Kópavogi. Ég hlakka til að hefja störf á þessum nýja vettvangi og vænti þess að reynsla mín sem skólameistari í MK nýtist vel, í þeim störfum sem bíða mín, með hagsmuni allra Kópavogsbúa að leiðarljósi,“ segir Margrét Friðriksdóttir, skólameistari, í yfirlýsingu.