„Þú verður að mæta í messu hjá okkur til að það sé eitthvað vit í þessu viðtali og heyra í kór Lindakirkju,“ segir séra Guðmundur Karl Brynjarsson þegar við hefjum spjall okkar. Tilefni viðtalsins er að fræðast um hvað sé eiginlega í gangi í Lindakirkju. Guðsþjónustur hafa verið vel sóttar og safnaðarstarfið er öflugt. Lindasókn var stofnuð árið 2002 og kirkjan vígð árið 2008.
„Möguleikarnir á að bjóða upp á fjölbreytt starf eru margfalt meiri en þegar ég byrjaði að þjóna Lindasókn,“ segir Guðmundur. „Fyrst í stað hafði ég ekki einu sinni skrifstofu, bara einn gemsa og fartölvu, en fljótlega reis safnaðarheimili á kirkjulóðinni, sem sumir kölluðu „húsið á sléttunni.“ Þar voru allir 86 fermetrarnir nýttir til hins ítrasta, enda fór allt safnaðarstarfið fram þar utan sjálfra guðsþjónustanna, sem við héldum í sal Lindaskóla og síðar Salaskóla á sunnudögum. Þetta voru skemmtileg ár og það hefur alltaf verið mikill hugur í sóknarbörnum í Lindasókn og eldmóður í þeim sem komið hafa að starfinu. Það skilar sér, því safnaðarstarfið hefur aukist og eflst jafnt og þétt.“
Leit á sjálfan sig sem pönkara
Guðmundur sleit barnsskónum í Keflavík en býr nú skammt frá Lindakirkju ásamt konu sinni, Kamillu Hildi Gísladóttur sem er kennari við Klettaskóla. Börn þeirra eru Kristín Gyða, sem er tvítug; Felix Arnkell 19 ára og Brynjar Karl 12 ára. Guðmundur segist ekki hafa verið sérlega trúaður sem barn og á unglingsárum hafi verið vandræðagangur á honum. „Ég var frekar andþjóðfélagslega þenkjandi, leit á sjálfan mig sem pönkara, drakk frekar mikið og fiktaði við eitt og annað. Ég tilheyrði vinahópi sem var mjög skemmtilegur og við vorum alltaf að bralla eitthvað skapandi. Þetta voru góð ár að mörgu leyti. Ég held að það sé eins með mig og marga aðra, að tónlist unglingsárana fylgir manni áfram. Ég sé sjálfan mig alveg fyrir mér á elliheimilinu með Utangarðsmenn í eyrunum,“ segir séra Guðmundur.
Þú fórst þá semsagt úr pönkinu í prestinn?
„Ég veit það nú ekki,“ segir Guðmundur og hlær. „Þetta var ekki alveg bein leið. Eins og ég nefndi áður þá var vesen á mér sem ég var ekki sáttur við. Um tvítugt áttaði ég mig á því að ég var að missa tökin á lífinu. Ég efaðist um tilvist Guðs en greip samt sem áður til þess ráðs að biðja hann um að hjálpa mér. Síðar frétti ég að margir hefðu fundið hjá sér þörf fyrir að biðja fyrir mér á þessum tíma, jafnvel fólk sem ég þekkti lítið. Þarna varð umsnúningur á mínu lífi og ég eignaðist trú á lífið og Guð. Ég vissi lítið um Guð og biblíuna á þessum tíma og það var auðvelt að reka mig á gat. En ég fann að þetta var gott og þarna vildi ég vera.“
Guðmundur fór einn vetur í biblíuskóla í Noregi og hóf nám í guðfræði við Háskóla Íslands árið 1990. Hann vígðist sem skólaprestur hjá Kristilegu skólahreyfingunni árið 1996 og varð sóknarprestur á Skagaströnd tveimur árum síðar. Þá lá leiðin í Hjallakirkju. Guðmundur hefur þjónað Lindasókn frá því hún varð að prestakalli 1. júlí 2002. „Þá má segja að draumur minn hafi ræst, því mig langaði að þjóna þar sem hægt væri að móta starfið frá grunni og enginn segði: „Þetta hefur alltaf verið svona.“ Þegar Lindasókn var stofnuð var þetta um 4-5000 manna prestakall en hefur nær þrefaldast.“
Guðsþjónusturnar í Lindakirkju eru á óvenjulegum tíma, kl. 20:00 á kvöldin og hefur það hentað mörgum vel, að sögn Guðmundar sem segir að allt önnur nánd og stemning skapist þegar messað er á kvöldin. Tónlistin í Lindakirkju er einnig af talsvert öðrum toga en fólk á að venjast í söfnuðum þjóðkirkjunnar. Þar er sungin gospeltónlist og sálmar fá á sig annan blæ. Tónlistarstjóri Lindakirkju er Óskar Einarsson, en hann hefur löngu getið sér orð sem helsti gospelgúrú landsins. „Það er óhætt að kalla það lúxusvandamál að færri komast í kór Lindakirkju en vilja, en hann telur milli 50 og 60 manns. Kórinn heldur nokkra tónleika á vetri hverjum. Þeir hafa verið afar vel sóttir og margir fastagestir þar. Í fyrrahaust gaf kórinn út plötuna „Með fögnuði“ en þar er að finna frumsamda tónlist úr Lindakirkju,“ segir Guðmundur sem spilar sjálfur á gítar og semur lög. Lögin eru öll sungin í messum. Hann hefur gaman af söng og hefur sungið með kór Lindakirkju stöku sinnum, meðal annars þegar kórinn söng á „Jesus Christ Superstar“ tónleikunum í Hörpu. Boðið verður upp á slíka sýningu aftur milli jóla og nýárs. „Ég hvet sem flesta að leita að „kór Lindakirkju“ á Youtube og sjá þar meðal annars flutning Áslaugar Helgu Hálfdánardóttur og kórsins á lögum eftir hana sem heita „Hallelúja“ og „Lead me on.“ Það eru dæmi um þá tónlist sem við flytjum í messum,“ segir Guðmundur.
Messur færðar nær nútímanum
Að sögn þeirra sem til þekkja eru messurnar í Lindakirkju færðar nær nútímanum. „Þjóðkirkjan er gríðarlega stórt trúfélag á landsvísu, en milli 70 og 80% landsmanna eru í henni. Í svo stóru trúfélagi ætti að vera eðlilegt, að helgihald væri fjölbreytt og söfnuðir þjóðkirkjunnar ekki steyptir í sama mót. Við erum að bæta fleiri blómum í flóru helgihaldsins. Fólk mætir til okkar, í Lindakirkju, af fúsum og frjálsum vilja og sækir í fjölbreytt og jákvætt starf. Sunnudagaskólinn er mjög vel sóttur hjá okkur. Prjónaklúbburinn „Vinavoðir“ hittist á mánudagsmorgnum. Prjónuð eru bænasjöl sem gefin eru fólki sem stendur á ýmsum tímamótum í lífi sínu. Alfa námskeið njóta mikilla vinsælda. Eftir áramót verður hjónanámskeið í boði. Ekki má gleyma barna- og unglingastarfinu, fjölgreinastarfinu, súpusamverum eldri borgara, foreldramorgnum, krílasálmum og unglingagospelkórnum sem fyrrnefnd Áslaug Helga stjórnar. Annars er best að kynna sér safnaðarstarfið á heimasíðunni, lindakirkja.is,“ segir séra Guðmundur og bætir því við að á morgun, sunnudag, frá klukkan 11–13 verður í fyrsta sinn boðið upp á „Kirkjubrall“ fyrir alla fjölskylduna. „Þar munum við koma saman og eiga skemmtilega samveru, föndra og bralla ýmislegt í kringum spennandi biblíusögu og síðan fáum við okkur að borða saman.“