Sæll Meistari! Svona var nú kveðjan sem mætti mér á björtum júlídegi. Ég var ekki viss hvort væri verið að gera gys að mér, eða hvort að ég væri kominn í hóp Meistaranna. Hvað um það, eftir nokkra umhugsum brosti ég út í bæði og svaraði í sömu mynt. Sæll Meistari! Nú heilsa ég ekki öðruvísi hér eftir en með þessum orðum og ætla því að nota þetta göfuga og flotta nafn fyrir þessa pistla sem ég mun skrifa hér í Kópavogsblaðið. Pistlarnir verða eingöngu um málefni Kópavogsbæjar og reynt verður að draga fram hið góða við eitt besta bæjarfélag á landinu og kannski verður hnýtt örlítið í þá hluti sem betur mættu fara. Kópavogur er nánast óaðfinnanlegur nú orðið, sérstaklega á þessu sumri sem hefur verið endalaust flott, sól og tveggja stafa hiti nánast allan sólarhringinn. Á svona sumri er ekki hægt annað en að njóta tilverunnar sem er endalaust skemmtileg og óútreiknanleg.
Eftir áratuga búsetu hér í Kópavoginum þá hefur maður séð marga hluti breytast, bærinn hefur stækkað og íbúum hefur fjölgað ótrúlega hratt. Hvort að það er gott eða vont er erfitt að meta. Bæjarfélagið var kyrrlátt og hér gerðust fáir hlutir og í litlum mæli. Breytingum fylgir alltaf óvissa og maður veit ekki hvað maður fær í staðinn fyrir það sem maður hafði. T.d. má nefna blessaða Hamraborgina. Þar hefur verið matvöruverslun til margra ára og lengst af Nóatún. Nú var það auglýst í vor að þessi vinalega verslun væri að loka og Krónan myndi opna í staðin. Yfir þessu smáatriði fékk ég örlítinn kvíða. Mér hefur alltaf líkað vel við Nóatún og vildi helst hafa búðina með þessu nafni þarna áfram enda ágætis verslun. Svo var Nóatúni lokað og í staðinn var opnuð glæsileg verslun, sennilega flottasta matvöruverslun landsins. Áhyggjur mínar og kvíði urðu að gleði og ánægju eftir breytinguna. Svona getur þetta verið og breytingar geta haft í för með sér eintóma ánægju.
Hinsvegar má benda á skrítnar breytingar eins og sundlaug Kópavogs. Við deilum ekkert um það að þessi laug er ein sú besta á landinu og er fjölsótt frá morgni til kvölds og ná vinsældir laugarinnar langt út fyrir Kópavog. Meira segja má heyra erlend tungumál í sturtunni, heita pottinum og í og við rennibrautirnar. Auðvitað ná vinstældir laugarinnar langt út fyrir landsteinana. En það er einn ljóður á þessari laug okkar. Af einhverjum undarlegum ástæðum eru svona rör með kraftmiklum bunum í einum af heitu pottunum. Ef maður vogar sér í þennan pott þá þarf maður að halda sig alveg í hinu horni pottsins þegar einhver sundlaugargesturinn setur bununa í gang og stendur undir henni. Vatnið gusast í allar áttir öllum í pottinum til ama. Hvernig stendur á því að svona stór og flottur pottur með nuddi og alles sé með svona bunu sem truflar alla sem eru að slaka á í honum. Bunan er sögð gott nudd fyrir bak og axlir og ekkert út á svona lúxus að setja, nema þá þetta með gusurnar. Af hverju má ekki stúka þetta bunuhorn í pottinum af og gera eina bestu laug landsins að bestu laug landsins?
Fyrst að maður er byrjaður á því að láta móðan mása þá ætla ég að enda á ótrúlegri staðreynd um eitt besta ef ekki bara besta bæjarfélag landsins. Hér fyrir nokkrum áratugum voru íbúar Kópavogs orðnir langeygir eftir því að fá meira af malbiki en einn kvartkílómetra eins og okkar ástsæla Ríó Tríó söng hérna um árið. Það var slagorð margra í kosningum að nú skyldi laga gömlu göturnar. Þá var átt við að malbika þær sem voru ómalbikaðar og einnig að laga þær sem voru komnar á viðhald. Nú mætti einhver hress aðili taka þetta slagorð upp. Göturnar okkar eru að verða eins og þær voru hér í denn, holóttar með eindæmum, það vantar bara rykið. Kannski má kenna kreppunni svo kölluðu og peningaleysi um allar holurnar. En það getur ekki verið endalaus afsökun. Ef ekkert verður að gert þá fáum við á okkur óorðið aftur um ómögulegt gatnakerfi og fælum frá okkur annars velkomna gesti úr öðrum bæjarfélögum. Úr þessu verður að bæta hið snarasta svo að Kópavogur standi undir nafni áfram sem besta bæjarfélagið. Endum bara á þessu í bili : Lögum göturnar!
Meistarinn.