Meistarinn skrifar

Þá kemur nú ágústkveðja frá Meistaranum til allra Kópavogsbúa. Eftir að ég byrjaði að skrifa þessa pistla hef ég nóterað niður áhugaverð mál sem varða Kópavog, bæði það sem betur mætti fara og svo það sem vel er gert. Og það get ég sagt að það er af nógu að taka. Bærinn okkar er svo stór og margt spennandi að gerast að maður gæti verið í fullri vinnu við að hafa einhverja skoðun á öllu saman. En best að byrja á því sem er athyglisvert. Það fór fram árlegt fótboltamót í Smáranum í Júlímánuði og er sennilega eitt skemmtilegasta mót sem haldið er í íþróttum á Íslandi. Keppendurnir eru ungar stúlkur og skín leikgleðin úr hverju andliti. Mótshaldið er allt til fyrirmyndar enda engir aukvisar sem standa að þessum viðburði. Við erum að tala um Símamótið sem Breiðablik stendur fyrir með svona miklum myndarbrag. Þó er aðeins eitt vandamál við þetta mót og það er foreldravandamál. Ungir og upprennandi dómarar sinna dómgæslunni á þessu móti og standa sig alveg með prýði en því miður þá eru stundum ekki færri en 10-20 sjálfskipaðir dómarar á hliðarlínunni og eru sjálfum sér til skammar. Þessari foreldra dómgæslu verður að linna og taki það til sín hver sem á. Símamótið í ár var flott í alla staði og frábært að fá alla þessa gesti í bæjarfélagið.

Fyrst við erum komin í Kópavogsdalinn þá lá leið mín í Sorpu um daginn. Eins og gengur þá ekur maður inn um hlið og þar er venjulega tekið á móti manni með mikilli kurteisi. Þannig var það líka í þetta skipti nema það að mér er rétt blað og tilkynnt að nú eigi að breyta starfseminni og mér var tilkynnt að stöðin ætti að minnka og best væri fyrir mig að fara í Hafnarfjörð næst. Allt er breytingum háð og ruslalosun er engin undantekning. Hér áður fyrr mátti losa rusl á Kársnesinu og ef ég man rétt þá voru það spennandi ferðir fyrir kornungt barn eins og ég var þá. Síðan var okkur Kópavogsbúum gert að fara í Gufunes með ruslið okkar en það er nú langt um liðið síðan það var. Og enn tók við nýr staður eða Leirdalurinn sem er í efri byggðum bæjarins. Sorpa á Dalvegi hefur þjónað sínu hlutverki vel og verið mjög þrifalegt þarna hjá þeim eins og mögulegt er með sorpstöð. En þetta þýðir verri þjónustu fyrir okkur bæjarbúa. Hér og þar eru grenndargámar og vonandi fá þeir að halda sér og væri kannski ráð að stækka þessa grenndargámastöðvar örlítð þannig að við þurfum ekki að fara í Hafnafjörð með smá rusl eða í Breiðholtið. Umferðin um Dalveginn er mjög mikil á annatímum og má vera að það dragi aðeins úr henni ef Sorpa minnkar starfsemina þar, sem er ágætt, en við íbúar bæjarins erum að verða fyrir skerðingu á þessari nauðsynlegu þjónustu.

Það nýjasta nýtt hér í bænum er að það á að efna til nafnasamkeppni fyrir göturnar í Smiðjuhverfinu. Smiðjuhverfið hefur alltaf verið dálítið framandi. Þar ægir saman allskonar fyrirtækjum og ef grannt er skoðað þá eru þjónustan þarna ótrúlega fjölbreytt. Með árunum hefur þetta hverfi orðið snyrtilegra sem er hið besta mál. En svo að ég haldi mig við efnið þá er þessi nafnasamkeppni alveg tímabær. Í dag heita þessar götur bara Smiðjuvegur og Skemmuvegur og maður veit aldrei í hvaða götu maður er staddur. Og svo hef ég aldrei geta sett mig inn í þessar merkingar, rauð gata, gul gata eða græn gata. Það er kannski mín takmörkun og þó þá styður þessi nafnasamkeppni núna það að það er eitthvað sem þarf að laga. Ég hef engar tillögur um það hvað þessar blessuðu götur eiga að heita en er viss um að það munu koma flottar tillögur frá áhugasömum íbúum. Mér finnst það frábært að bæjarfélagið stígi svona fram og biðji bæjarbúa um að segja sína skoðun og koma með tillögur. Það mætti gera í miklu fleiri málum. Nú er til dæmis rifist um það hvar bæjarskrifstofurnar eigi að vera í bænum. Af hverju ekki að efni til samkeppni um það líka? Þá þarf ekki að eyða orku í deilur og rifrildi en með einhvers konar samkeppni um stað eða byggingu eða hvað sem deilt er um í þessu máli þá færi fram jákvæð og skemmtileg samkeppni sem eftir væri tekið og bæjarfélaginu til sóma.

Ég get varla klárað þennan pistil nema að minnast á veðrið sem er búið að leika við okkur Kópavogsbúa í sumar. Hitinn helmingi hærri heldur en fyrir norðan dag eftir dag enda hefur maður ekki heyrt í neinum norðlendingi í allt sumar sem heldur því fram að það sé 20 stiga hiti á Akureyri eins og oft áður. Verslunarmannahelgin var alveg frábær hérna í bænum. Gott veður og umferðin nánast engin.  En það sem er ekki nógu gott er að upphalds veitingastaðirnir mínir loka þessa helgi. Eini staðurinn sem ég fann opinn á laugardagskvöldi um verslunarmannahelgi var staður sem heitir Jordan. Nafnið á honum bendir til þess að þetta sé einhver hamborgarabúlla. En það kom mer á óvart að þarna fékk ég fyrirtaks mat að austurlenskum hætti. Vel falinn veitingastaður en þó í alfaraleið.

Meistarinn kveður að sinni. 

Deildu:

Facebook
Twitter
Pinterest
LinkedIn

Fleiri fréttir

Þúsundir íbúða í nýjum lífsgæðakjarna í Kópavogi

Áform um uppbyggingu hjúkrunarrýma og íbúða á Gunnarshólma Loftmynd af svæðinu Bæjarráð Kópavogs hefur samþykkt að vísa áfram til samþykktar bæjarstjórnar drögum að viljayfirlýsingu við Aflvaka þróunarfélag um uppbyggingu 5.000

Kársnesskóla skipt í tvo skóla

Kársnesskóla verður skipt upp í tvo sjálfstæða skóla á skólaárinu 2024 til 2025 samkvæmt tillögu menntasviðs Kópavogsbæjar sem samþykkt hefur verið í bæjarstjórn Kópavogs. Lagt er til að skólanum verði

Jólatónleikar Samkórs Kópavogs

Samkór Kópavogs syngur inn aðventuna á sínum árlegu jólatónleikum sunnudaginn 3. desember n.k. Tónleikarnir verða í Digraneskirkju og hefjast kl. 17:00. Einsöngvari með kórnum að þessu sinni er tenórsöngvarinn Gunnar