
Nýlega fundust villtir ferðalangar hjá Búddastyttunni við Lindakirkju; slæptir, tættir og úrkula vonar. Þeir voru að leita að Salarlauginni en höfðu ekki fundið hana. Engar merkingar eru í Kópavogi um hvar laugina er að finna. Skilti til að leiðbeina ferðamönnum um bæinn eru sjaldséð og torskilin. Góður Kópavogsbúi vísaði ferðamönnunum veginn og hafði samband við Kópavogsfréttir til að vekja athygli á merkingarleysinu í bænum.
Heyrst hefur að ferðalangar hafi endað í húsagörðum Kópavogsbúa, gjörsamlega rammvilltir eftir að hafa ætlað að hlaupa úr Fossvogsdal yfir í Kópavogsdal. Ferðamönnum fjölgar sem nýta sér göngu- og hjólaleiðir á höfuðborgarsvæðinu og það vantar skilti til að vísa til vegar.
„Hvar er sundlaugin,“ er yfirleitt það fyrsta sem ferðamenn spyrja sig að, eða: „Hvar get ég gist, keypt ís eða tjaldað?“ Ef ferðamenn ná að rata um bæinn þá er ekki víst að þeir rekist á miðbæinn okkar, Hamraborgina, nema nota GPS eða ráða í ferðir himintunglanna. Skiltin eru fá sem vísa vegfarendum veginn á einfaldan hátt.
Annar lesandi hafði samband og sagðist hafa gríðarlega góða bissnesshugmynd, sem væri að búa til ratleik í bænum. Planta ferðamönnum einhvers staðar í Kópavogi og láta þá keppa um hver verði fyrstur til að rata í eitthvað fyrirtæki í Smiðjuhverfi, til dæmis. „Þetta yrði svona „Amazing Race in Kópavogur,“ sagði hinn kankvísi lesandi og bætti því við að leikurinn gæti þó dregist á langinn því það væri vonlaust fyrir ferðamenn að rata um bæinn.
Ratar þú í Kópavogi? Örstutt könnun hér til hægri á síðunni ====>