Kópavogsbúum fjölgaði mest af íbúum höfuðborgarsvæðisins ef mið er tekið af tölum Hagstofunnar sem ná frá 1. júlí í fyrra til 1. júlí í ár. Blaðið Reykjavík greinir frá þessu. 740 manns bættust í hóp kátra Kópavogsbúa, sem er 2,36% aukning frá því í fyrra. Samtals eru Kópavogsbúar nú 32.130 manns. Það eru 4.590 handboltalið eða 2.921 fótboltalið.
Fjölgun hefur orðið í öllum sveitarfélögum höfuðborgarsvæðins frá því í fyrra. Næst mesta fjölgunin varð í Hafnarfirði, sem kemst þó varla með tærnar þar sem Kópavogur er með hælana. Hlutfallsleg fjölgun í Hafnarfirði varð 1,61% – um 430 manns, eða jafn mikið og 39 fótboltalið.