Mesta upplifun lífsins

Ágústa Mithila Guðmundsdóttir er nemandi í Menntaskólanum í Kópavogi, fædd 1998. Hún bjó í fimm ár í Malaví.

Fyrir fimm árum flutti ég til lands sem ég vissi ekki einu sinni að væri til. Það eru meira en 195 lönd í heiminum og af þeim öllum fluttum við til Malaví. Landið er í Suðaustur-Afríku, liggur hvergi að sjó en á landamæri að Mósambik, Zambíu og Tanzaníu. Þar búa á bilinu 15-18 milljónir manna. Landið er mjög friðsælt og íbúarnir glaðværir og vingjarnlegir. Dýralífið er ekki ósvipað því sem við þekkjum frá öðrum Afríkulöndum; flóðhestar, sebrahestar, apar og fílar, en villtum dýrum hefur fækkað mjög eftir því sem mannfólkinu hefur fjölgað. Þar eru samt nokkrir þjóðgarðar og þar er verið að reyna að ala aftur upp stofn af dýrum sem voru horfin frá Malaví, eins og ljónum.

Malaví er fallegt land, ekki síst við vatnið og þar eru fallegar baðstrendur. Malavívatn er þriðja stærsta stöðuvatn í Afríku, í kringum 29 þúsund ferkílómetrar. Það er mikið líf í vatninu, yfir 1000 tegundir af fiskum og þá ekki síst skrautfiskar eins og við erum vön að sjá í fiskabúrum hérlendis. Það er óskaplega gaman að kafa í vatninu, ég fór á námskeið og náði mér í köfunarréttindi.

Malaví er ekki eina landið sem á landamæri að vatninu, því Mósambík og Tanzanía liggja að því að hluta austan megin.

Ástæðan fyrir því að við fluttum til Malaví var sú að pabbi minn var ráðinn til starfa við þróunarverkefni í sendiráði Íslands í Lilongwe, sem er höfuðborg landsins. Ég og yngri systir mín fórum í alþjóðlegan skóla, Bishop Mackenzie International School.

Malaví var áður bresk nýlenda en fékk sjálfstæði fyrir meira en 50 árum. Höfuðborg landsins meðan Bretar stýrðu var Zomba, hún stendur hærra og þar er ekki alveg eins heitt. Nú er næstum öll stjórnsýsla í Lilongwe, en höfuðborg viðskipta er samt ekki síður Blantyre.

Mikil fátækt og erfiðleikar

Mörg tungumál eru töluð í Malaví en þau opinberu eru enska og Chichewa. Íbúafjöldinn er ekki nákvæmur, allar skráningar eru óöruggar og erfiðar í framkvæmd, því mörg þorp eru mjög afskekkt og erfitt að komast þangað. Það er þó eitt þéttbýlasta landið í Afríku. HIV smit er mjög algengt. Það er talið að um tíundi hver íbúi sé smitaður og hlutfallið er um tuttugu prósent í héraðinu þar sem Ísland er með verkefni, í lýðheilsu, vatnsöflun og menntamálum. Aðgangur að HIV lyfjum er góður og það hefur dregið úr nýjum smitum á undanförnum árum, þannig að kannski næst að stöðva útbreiðsluna á næstu árum. Malaría er landlægur sjúkdómur og mjög margir deyja úr malaríu á hverju ári. Samt er frekar auðvelt að lækna malaríu ef lyf fást nógu snemma og það dregur mikið úr smithættu ef maður sefur undir moskítóneti á nóttunni.

Mikill meirihluti Malava er kristinnar trúar, eða um 70%. Stærstur hluti hinna er Múhameðstrúar. Síðan blandast oft allskonar galdratrú saman við hefðbundnu trúarbrögðin og stundum verður úr því skrítin blanda. Í skólanum mínum voru krakkar frá meira en 50 löndum og þar blönduðust saman enn fleiri trúarbrögð. Það var gaman að kynnast ólíkri menningu og trúarbrögðum.

Gefandi sjálfboðaliðastarf

Síðasta árið mitt í Malaví tók ég mér hlé frá náminu til þess að sinna verkefnum í þorpum og hjálpa fólki. Eitt af þessum verkefnum var í framhaldsskóla í þorpinu Chowe í Mangochihéraði, en það er um 260 kílómetra frá höfuðborginni, við suðurodda Malavívatns. Nemendur í Setbergsskóla í Hafnarfirði höfðu safnað peningum í verkefni í Chowe og þau báðu mig um að finna út hvað væri skynsamlegt að gera. Ég fór í nokkrar heimsóknir, hitti kennarana og nemendur og höfðingjann í þorpinu, sem er mikill vinur pabba míns. Eftir nokkra fundi var ákveðið að nota peningana til að byggja upp bókasafn í framhaldsskólanum, þar sem nemendur gætu lært eftir skóla og hægt væri að setja bækurnar í hillur, en fram að því höfðu þær legið á gólfinu þar sem termítar fóru í þær og skemmdu.

Þetta verkefni tók marga mánuði að klárast. Allt tekur tíma í Malaví. Það tók tíma að finna nógu góðan smið, og í rauninni var bara einn smiður í þorpinu sem var nógu hæfur til að sinna verkinu.

Í Chowe sem er uppi í fjöllum í Mangochihéraðinu búa um 5000 manns. Þar eru næstum allir Múhameðstrúar. Fólkið lifir á maís sem það ræktar sjálft, býr til úr því maísköku og graut eftir að maísinn hefur verið malaður í duft. Síðan borðar fólk baunir með og stundum kjöt eða fisk, en aðallega á hátíðum, því það er dýrt. Lífið er fábreytt. Fólk vaknar snemma, fer á akurinn, konurnar hugsa um börnin, sækja vatn og eldivið, þvo og hugsa um matinn. Oft fær maður á tilfinninguna að skyldustörf kvennanna séu miklu erfiðari en störf karlanna.

Skólinn er staðsettur innst inn í þorpinu. Í honum eru 109 nemendur, aðallega strákar um og yfir 17 ára. Stelpurnar á þeirra aldri verða flestar ófrískar og sumar löngu fyrr. Það er eitt af stærstu vandamálunum í landinu, Malavar byrja að eiga börn alltof snemma. Stundum eru stelpur á mínum aldri búnar að eignast þrjú börn.

Í undirbúningnum fór ég í margar heimsóknir í þorpið. Ég fór oft til höfðingjans, oftast með pabba, en hann og höfðinginn hafa þekkst í a.m.k. fjögur ár og eru mjög góðir vinir. Þeir halda enn góðu sambandi. Ég fór á fund með nemendaráðinu í skólanum til að fá hugmyndir. Þær voru endalausar. Það vantar næstum allt og það litla sem er til er gamalt og úr sér gengið. Eftir langar umræður var samþykkt að breyta einu stóru herbergi sem var lítið notað í bókasafn. Það þurfti að laga þakið, eitra fyrir termítum, kalka veggi og margt fleira. Allt var þetta gert með peningunum sem Setbergsskólinn safnaði. Það voru smíðaðar hillur, vinnuborð fyrir nemendur og afgreiðsluborð. Þegar þessu var lokið fékk ég þau fallegustu bros sem hægt er að ímynda sér til að fara með til krakkanna í Setbergsskóla, en fyrir jól flutti ég fyrirlestur með glærum í skólanum, þar sem ég lýsti verkefninu fyrir þeim frá upphafi til enda.

Ég tók þátt í ýmsum öðrum verkefnum. Vinur okkar á Íslandi fjármagnaði heilt mæðraskýli við fæðingardeildina í Chowe. Svoleiðis bygging kostar líkt og nýr fjölskyldubíll á Íslandi, þannig að það var enginn smáræðis stuðningur frá einum einstaklingi. Pabbi minn sá um peningana og að allt gengi vel eftir – og höfðinginn vinur okkar var byggingastjóri.

Það er mikil reynsla að fá tækifæri til að búa í svona framandi landi. Ég verð örugglega alla ævina að vinna úr henni. Þótt ég hafi upplifað mikla eymd og fátækt og séð hluti sem ég grét yfir, þá er reynslan í heild mjög jákvæð. Það er gott að fá tækifæri til að kynnast því hvernig fólk býr annars staðar í heiminum, því þá lærir maður betur að meta það sem maður hefur. Ég hefði að minnsta kosti ekki viljað missa af þessari reynslu.

Deildu:

Facebook
Twitter
Pinterest
LinkedIn

Fleiri fréttir

Þúsundir íbúða í nýjum lífsgæðakjarna í Kópavogi

Áform um uppbyggingu hjúkrunarrýma og íbúða á Gunnarshólma Loftmynd af svæðinu Bæjarráð Kópavogs hefur samþykkt að vísa áfram til samþykktar bæjarstjórnar drögum að viljayfirlýsingu við Aflvaka þróunarfélag um uppbyggingu 5.000

Kársnesskóla skipt í tvo skóla

Kársnesskóla verður skipt upp í tvo sjálfstæða skóla á skólaárinu 2024 til 2025 samkvæmt tillögu menntasviðs Kópavogsbæjar sem samþykkt hefur verið í bæjarstjórn Kópavogs. Lagt er til að skólanum verði

Jólatónleikar Samkórs Kópavogs

Samkór Kópavogs syngur inn aðventuna á sínum árlegu jólatónleikum sunnudaginn 3. desember n.k. Tónleikarnir verða í Digraneskirkju og hefjast kl. 17:00. Einsöngvari með kórnum að þessu sinni er tenórsöngvarinn Gunnar