Sunnudaginn 1. mars 1874 fóru 3 ungmenni, börn Árna bónda Björnssonar á Hvammkoti í Seltjarnarneshreppi (síðar Fífuhvammur í Kópavogshreppi), til kirkju í Reykjavík, meðfram til að fylgja Steinþóru Þorkelsdóttur frænku sinni sem gekk til prestsins. Systkinin voru Þórunn (f. 27. 9. 1855), Sigríður Elísabet (f. 14. 6. 1858) og Árni (f. 17. 1. 1859).
Leysing var áköf um daginn og hafði Kópavogslækur vaxið mikið. Þegar börnin komu að honum á heimleiðinni var mikill straumur í honum, orðið áliðið dags og dimmt. Freistuðust þau til að komast yfir hann á broti sem þeim þótti tiltækilegast og leiddust, pilturinn á undan, yngri stúlkan næst og eldri stúlkan síðust. Þau óðu lækinn í hné og drengurinn sm gekk á undan hafði staf í hendi, en í miðjum læknum missti hann fótanna og datt, því hált var í botninum. Straumurinn reif hann þegar með sér og ætlaði þá yngri stúlkan að grípa til hans, en missti þá einnig fótanna og að líkindum hin stúlkan eins. Yngri stúlkan komst upp
úr læknum og gat kallað til hjálp, en það var um seinan, eldri stúlkan fannst við jaka í læknum langt frá þeim stað sem þau ætluðu að vaða yfir og lík drengsins fannst daginn eftir ennþá neðar. Allar lífgunartilraunir voru árangurslausar.
Að minnsta kosti þrjú kvæði voru ort um slysið árið 1874 og birt í fréttablöðum. Eitt þeirra er kvæði Matthíasar Jochumsonar „Börnin frá Hvammkoti“ í Þjóðólfi 30. júní 1874.
Nánari umfjöllun má sjá á vefsíðu Sögufélags Kópavogs: www.vogur.is
Í tilefni af því að laugardaginn 1. mars 2014 verða 140 ár liðin frá slysinu mun Sögufélag Kópavogs og Kópavogsbær minnast þess með athöfn við lækinn kl. 13:00, nálægt ætluðum slysstað, rétt neðan við Digraneskirkju. Verður þar afhjúpað minnismerki um það. Vonast er til þess að sem flestir verði viðstaddir athöfnina. Þægilegasta aðkoman er frá bílastæði Digraneskirkju.