Keppnislið Menntaskólans í Kópavogi í Gettu betur etur kappi við lið Fjölbrautaskólans í Garðabæ á morgun laugardag 25. janúar. Viðureignin fer fram í Útvarpshúsinu og hefst kl. 14:30. Báðir skólarnir komust í 8-liða úrslit í fyrra, og þar með Sjónvarpið, og misstu naumlega af sæti í undanúrslitum þannig að búist er við spennandi viðureign þessara nágrannaskóla.
„Við erum bara brattir og ætlum okkur að komast aftur í sjónvarpið,“ segir fyrirliðinn Lárus Guðmundsson. Hann segir undirbúningstímabilið hafa verið vel nýtt og svo verði bara að koma í ljós hverju sá undirbúningur skili. „Við gerum að minnsta kosti okkar allra besta.“
„Lið okkar er nokkuð breytt frá síðasta ári. Lárus var í fyrra en Bjarni Þór Stefánsson og Róbert Gíslason koma nýir inn. Bjarni hefur þó áður keppt fyrir hönd skólans í Gettu betur,“ segir Magnús Már Guðmundsson, kennari í MK sem jafnframt er þjálfari liðsins.
Bjarni útskrifast af náttúrufræðibraut í vor en Róbert er á sínu fyrsta ári í MK. Hann er á félagsfræðibraut en Lárus er líkt og Bjarni á náttúrufræðibraut. Bjarni og Róbert eru Kópavogsbúar en Lárus kemur frá Reykjavík.