Stjórn nemendafélags MK er ekkert allt of upptekin við námið þessa dagana því nóg er að gerast í félagslífinu. Metúsalem Björnsson, formaður nemendaráðs, Arnar Örn Ingólfsson, margmiðlunarstjóri og Ragnheiður Emilía Auðunsdóttir, gjaldkeri nemendafélagsins segjast algjörlega vera upp fyrir haus í verkefnum þessa dagana.
„Það er ekki nóg að það er 40 ára afmæli skólans á morgun, við erum líka að fara að halda Tyllidaga hátíðlega í lok mánaðarins,“ segir Metúsalem. „Þá verður nóg um að vera í skólanum. Við verðum með 80s þema þannig að það verður brjálað stuð. Tyllidagarnir klárast svo í skemmtilegu sundlaugapartíi þar sem verður plötusnúður og diskóljós og svo verður ball á SPOT. Við höldum þessu innan Kópavogs,“ segir Metúsalem.
-Hvernig er stemningin hjá nemendum fyrir afmælishátíðina á morgun?
„Alveg gríðarlega góð,“ segir Arnar, margmiðlunarstjóri. „Við munum mæta í sparifötunum okkar í skólann og svo verður risastór kaka í hádeginu. En hátíðardagskráin byrjar klukkan fjögur þar sem verða skemmtiatriði og gamlir nemendur skólans koma saman. Það er allt á fullu núna í skólanum við að undirbúa húllumhæið,“ segir Arnar.
-En hvað er svo á dagskrá hjá ykkur á næstunni?
„Þessu til viðbótar verðum við með útvarpsstöð á Tyllidögunum, breytum salnum okkar í 80s skemmtistað, förum á Paintball mót framhaldsskólanna, veljum í MORFÍS og Gettu betur lið og svo ætlum við að gefa út blað nemendafélagsins á næstu dögum. Þetta er nú bara það sem er á döfinni næstu tvær vikurnar,“ segja þau eldhressu – en jafnframt mjög svo uppteknu – Metúsalem Björnsson, Arnar Örn Ingólfsson og Ragheiður Emilía Auðunsdóttir hjá Nemendafélagi MK rétt áður en þau stukku í tíma.