Nú stendur yfir myndlistarsýning Gríms Marinós Steindórssonar á 1. hæð bókasafns Kópavogs.
Grímur Marinó nam myndlist í Myndlistarskóla Reykjavíkur 1948-1950. Einnig lærði hann við járniðnaðardeild Iðnskólans í Reykjavík. Hann hefur haldið yfir 30 einkasýningar, að því kemur fram í tilkynningu frá Bókasafni Kópavogs.
Útilistaverk Gríms Marinós eru til sýnis víðs vegar í Kópavogi og víða um land en einnig erlendis, t.d. í Þýskalandi og Danmörku. Grímur Marinó var bæjarlistamaður Kópavogs 1994 og hefur vinnustofu að Kársnesbraut 106 í Kópavogi.
Sýningin stendur til 30. október og er opin á afgreiðslutíma safnsins.