Ágætu Kópavogsbúar!
Næstbestiflokkurinn og sundlaugavinir bjóða fram til bæjarstjórnarkosninga í vor. Eitt helsta baráttumál Næstbestaflokksins fyrir síðustu kosningar var lengdur opnunartími í sundlaugum Kópavogs sem hafði verið styttur verulega 2010. Á árinu 2011 dró verulega úr aðsókn í laugarnar okkar og með talsverðu harðfylgi tókst okkur í Næstbesta að færa opnunartímann til fyrra horfs að mestu leiti. Það var eins og við manninn mælt; aðsóknin tók að glæðast að nýju og hefur nú náð fyrri hæðum.
Það er okkar skoðun að sundlaugarnar í Kópavogi séu á heimsmælikvarða. Þær eru sannarlega mikilvægur og ódýr vettvangur til hollrar hreyfingar, félagslegra samskipta og almennrar lýðheilsu. Undanfarin 17 ár hefur okkur boðist einstakur kostur á ódýrri líkamsrækt í samstarfi við prýðilegt fyrirtæki sem hefur ekki bara fært sundlaugunum fjárhagslegan ávinning, heldur það sem er mest um vert; íbúum vellíðan og betri heilsu. Þetta fyrirkomulag hefur komið sér einkar vel fyrir elstu sundlaugargesti sem hafa notið góðra kjara í líkamsrækt sundlauga Kópavogs. Þetta samstarf er nú í uppnámi sem öllum notendum sundlauganna er vel kunnugt um. Fulltrúar Næstbesta munu leggja allt sitt af mörkum svo kópavogsbúar geti í framtíðinni gefist kostur á ódýrri líkamsrækt í okkar stórkostlegu sundlaugum. Það er loforð sem við munum standa við. Við viljum bæta um betur og endurvekja það fyrirkomulag sem var fyrir 2010 að bjóða íbúum Kópavogs sem eru eldri en 67 ára gjaldfrálsan aðgang að sundlaugunum. Við teljum það bestu leiðina til bættrar lýðheilsu þessa aldurshóps. Sundlaugarnar eru langt því frá okkar eina baráttumál. Við leggjum til samvinnu á breiðum grunni í öllum málaflokkum. Samvinnu milli sveitarfélaga á höfuðborgarsvæðinu í félagsþjónustu og skólamálum. Samvinnu milli leik og grunnskóla og annarra stofnana bæjarins og betri samvinnu við ríkisvaldið í veigamiklum málum sem nú eru í uppnámi. Samvinna er lykilatriði sem mun skila okkur betri þjónustu og minni kostnaði. Við leggjum til að kjör starfsmanna bæjarins sem lægst laun hafa verði bætt. Við leggjum til úrbætur í mannréttindamálum, sérstaklega þeim sem snúa að innflytjendum. Við leggjum til úrbætur í húsnæðismálum sérstaklega í félagslega leiguíbúðakerfinu en einnig, sem skiptir ekki síður miklu máli á almennum markaði og fyrir leigendur.Á næstu vikum munum við kynna nánar tillögur okkar sem við leggjum í ykkar dóm á kjördegi þann 31.maí n.k. Við bjóðum fram lista óvenjulegra kópavogsbúa sem hafa engin bein hagmunatengsl við fyrirtæki, stofnanir, félagasamtök eða stjórnmálaflokka í bænum. Okkar eina hugsjón er að vinna að hagsmunum allra í Kópavogi. Vonandi takið þið vel á móti okkur.
Hjálmar Hjálmarsson, frambjóðandi Næstbestaflokksins og sundlaugarvina.