Næstum andlát endurvinnslu Braga

Hilla af skyrdollum.
Bragi Halldórsson.

Plastlaus september? Ekki málið. Lengi búin að flokka allt rusl, endurnýta og endurvinna. Það var því stoltur ég sem fór að kaupa í matinn eitt kvöld í september. Klappaði á margnota innkaupapokinn í vasanum, greip kerru og með innkaupamiða á lofti lagði ég af stað inn í völundarhús verslunarinnar.

Þá tók ég eftir því að vagninn var úr plasti. Þetta er bókstaflega alstaðar. Hnussaði í mér vandlætingin er ég teygði mig eftir áleggi. Því var pakkað í plast. Alstaðar, hugsaði ég hneykslaður og náði í flatkökur. Nei heyrðu mig nú, í plasti. Það þyngdist á mér brúnin. Næst var það skyr. Plastdolla. Ég skimaði eftir verslunarstjóranum. Nei, þetta er víst ekki á hans ábyrgð.

Salat. Það lifnaði yfir mér. Ekkert plast þar maður minn. Ískrið í plasthjólunum á kerrunni þagnaði og ég teygði mig eftir salatinu. Því var pakkað í plast. Renndi augunum yfir grænmetisrekkana. Sumt í lausu en plastpokar til þess að tína það ofan í héngu alstaðar. Það var farið að fjúka í mig. Kartöflur hljóta að vera til í lausu. Jú, stóð heima. En hvernig ætlaði ég að flytja þær. Ætlaði ég að sturta þeim á færibandið og þær skoppa út um allt? Horfði á kartöflurnar í lausu tómhuga í veit ekki hve langan tíma. Skömmustulegur teygði ég mig í tilbúin kílóa poka og leit dapur aftur á listann. Stórir ruslapokar, þessir svörtu og litlir nestispokar. Plastpokar. Var ég sem sagt að fara að kaupa hreint plast. Ekki umbúðir, heldur hreint plast. Það var frekar skjálfandi hendi sem teygði sig í þetta hreina plast og í flýti faldi það neðst í kerrunni.

Ég þorði varla að líta á listann aftur. Kolsýrt vatn, tvo lítra. Lúpulegur ýtti ég kerrunni að þessum heila vegg af bragðbættu vatni í plastflöskum. Ég þekkti þær. Hve oft var ég ekki búin að arka bísperrtur framhjá þeim og í hneykslan hugsað. „Afhverju setur fólk ekki bara kranavatni í glerflösku og bætir nýkreistum safa úr lífrænt ræktuðum ávöxtum út í?“ En innst inni vissi ég að ég hafði aldrei gert það sjálfur og myndi ólíklega nokkurn tímann gera það. Hún var því ansi þung plastflaska sem ég lét detta ofan í körfuna og reyndi ekki einu sinni að fela hana. Enda til hvers. Það var varla neitt annað plast í henni hvort eð var.

Hilla af skyrdollum.

Mér leið eins og eitthvað væri að deyja inn í mér þegar ég raðaði öllu plastinu á færibandið. Reyndi þó að reisa við laskað stolt mitt og dró upp fjölnotapokann og muldraði að ég þyrfti ekki einnota poka. Kassastrákurinn tók ekki eftir því. Ég heyrði ekki hvað þetta kostaði. Stakk bar plastkortinu í posann og fór.

Það voru þung skref úr búðinni út í bíl þetta september kvöld. Ég horfði á fjölnota innkaupapokann minn sem hafði svo lengi verið stolt mitt. Með mynd af Múmínsnáðanum og allt. Þá tók ég eftir því að hann var úr næloni. Nælon er plastefni, tísti í plast púkanum. Og flíspeisan þín líka. Viltu að ég haldi áfram, svo veltist hann um af hlátri. Ég leit vonaraugum á áður stoltan endurvinnslu Braga engilinn á hinni öxlinni. En hann þagði þunnu hljóði.

Þegar heim kom, læddist ég eins og þjófur að nóttu inn í eldhús með allt plastið mitt og opnaði ísskápinn skjálfandi hendi. Ég vissi alveg hvað myndi blasa við mér. En að horfast í augu við það var allt annað. Ljósið kviknaði í ísskápnum og lýsti upp vart sýnilegan matinn. Hann var allur hulinn plasti. Innrammaður af plastinnréttingu.

Það spratt kaldur sviti fram á enninu á mér. Innan í mér var áður stoltur endurvinnslu Bragi að gefa upp öndina. Ég greip í eldhúsborðbrúnina og teygði mig skjálfandi eftir verkjatöflu plastdollu. Gleymdi í fátinu vatnsglasi til að skola þeim niður og kúgaðist og hóstaði þegar töflurnar reyndu allar að troða sér ofan í mig í einu. Andskotinn sjálfur hugsaði ég. Maður er ekki hannaður fyrir þessi ósköp. Ég verð að fá mér plastbarka. Það er nokkuð ljóst.

Umræðan

Fleiri fréttir

Lyfjaskolp við Gvendarbrunna – skipulagsslys við Gunnarshólma

AðsentMeirihluti bæjarstjórnar Kópavogs hefur samþykkt að skoða alvarlega áform um að reisa heilsutengt ofurþorp fyrir 15.000 manns við Gunnarshólma, í miðju vatnsverndarsvæði höfuðborgarsvæðisins. Svæðið er þekkt flóðasvæði þar sem áin Suðurá flæðir

Íbúar völdu saunur og skautasvell

Infrarauðar saunur og yfirbyggðir stigar í rennibrautir beggja sundlauga Kópavogs, vélfryst skautasvell í Kópavogsdal, bleikir bekkir til minningar um Bryndísi Klöru Birgisdóttur, aðstaða til sjósunds á Kársnesi og endurnýjun og

Höskuldur og Thelma íþróttakarl og íþróttakona ársins

Höskuldur Gunnlaugsson knattspyrnumaður úr Breiðabliki og Thelma Aðalsteinsdóttir fimleikakona úr Gerplu voru kjörin íþróttakarl og íþróttakona Kópavogs fyrir árið 2024.  Kjörinu var lýst á íþróttahátíð Kópavogs í Salnum miðvikudaginn 8.

Leifur Eiríksson Þjónustumiðstöð Kópavogsbæjar, Unnar Atli Guðmundsson plokkari, Ásdís Kristjánsdóttir bæjarstjóri og Ásthildur Helgadóttir sviðsstjóri umhverfissviðs.

Plokkari ársins

Unnar Atli Guðmundsson er plokkari ársins í Kópavogi. Bæjarstjóri Kópavogs Ásdís Kristjánsdóttir heiðraði Unnar í Þjónustumiðstöð Kópavogsbæjar en þangað sækir Unnar ruslapoka fyrir plokkið, sem unnið er í sjálfboðavinnu. Unnar