Portúgalska knattspyrnugoðið Nani, sem spilar með Manchester United, þekkja flestir sparkspekingar. Færri vita að náfrændur hans, tvíburabræðurnir Gabrial og Rafael Costa, hafa búið hér á landi í um átta ár. Strákarnir, sem nú eru 14 ára, spila á köntunum og í fremstu víglínu í fjórða flokki Breiðabliks. Þeir hafa strax vakið eftirtekt fyrir leikskilning og hæfileika, enda eiga þeir það ekki langt að sækja.
-Hvernig eruð þið skyldir Nani?
„Föðurafar okkar Nani eru bræður frá Grænhöfðaeyjum,“ segir Gabriel og bætir við, „en Nani er fæddur í Portúgal og þess vegna spilar hann með portúgalska landsliðinu.“
–Og hafið þið oft hitt hann?
„Já, þegar hann kom til Íslands og lék fyrir Portúgal í landsleik. Við höfum líka hitt hann úti í Portúgal.“
–Það þarf þá ekkert að spyrja ykkur hvaða liði þið haldið með í ensku?
„Nei, við höldum að sjálfsögðu með Manchester United, segir Rafeal, „en Barcelona og Real Madrid eru líka góð lið.“
–Hvernig er svo að vera í Breiðablik?
„Algjörlega frábært,“ segja bræðurnir í kór. „Æfingarnar eru mjög góðar, þjálfararnir frábærir og allur stuðningurinn í kringum Breiðablik eins og best verður á kosið. Næst hjá okkur verður að fara út til Danmerkur á Danacup þar sem við fáum að spila á móti liðum frá öðrum löndum,“ segja þessir hógværu piltar í fjórða flokki Breiðabliks, og aldrei að vita nema frændi þeirra, Nani, sjáist á vellinum í framtíðinni að hvetja sína menn til dáða.