Skaðræðisgjörningur bæjarstjórnar Kópavogs
Bæjarstjórn Kópavogs ákvað á fundi sínum 25. apríl 2023 með sex atkvæðum meirihlutans gegn fimm atkvæðum minnihlutans að leggja niður Héraðsskjalasafn Kópavogs. Þar fetaði bæjarstjórnin í slóð borgarstjórnar Reykjavíkur sem ákvað nokkru áður að leggja niður Borgarskjalasafnið og fela það umsjón Þjóðskjalasafnsins.

Notendurnir, íbúar Kópavogs og kjósendur þar höfðu ekkert frétt af þessum áformum meirihlutans fyrir sveitarstjórnarkosningarnar síðustu. Þær upplýsingar komu óvænt fram nokkru eftir kosningarnar og í byrjun hvíldi yfir þeim leynd sem kom í veg fyrir opna umræðu um áformin. Svo afdrifaríka og skaðlega ákvörðun ætti meirihluti sveitastjórnar á einu kjörtímabili ekki að geta tekið. Til að bæta gráu ofan á svart henti meirihlutinn Náttúrufræðistofunni fyrir borð með sömu samþykkt.
Kópavogsbúar áttu í Héraðsskalasafninu sögulegt minni sitt og grundvöll sagnaritunar og sögufróðleiks um Kópavog. Það á að vera mikilvægt fyrir næst stærsta sveitarfélag landsins að varðveita og hlúa að slíku. Meirihlutinn hafði reyndar boðað í stefnuskrá sinni fyrir kosningar að áhersla skyldi lögð að efla menningarstarfssemi í bæjarfélaginu. En þessi loforð snerust upp í andhverfu sína og verkin tala. Áttaviti meirihlutans gerði engan greinamun á norðri og suðri og farið var í þveröfuga átt. Slík skipstjórnarmistök enda yfirleitt með strandi.
Næsti fasi í þessum dularfulla hráskinnaleik bæjarstjórnar var að undirbúa og hrinda í framkvæmd uppsögn þeirra fræðimanna sem sinnt höfðu með fagmennsku skjalavörslu og upplýsingagjöf til þeirra er til safnsins leituðu. Þar var þeim fjölmörgu bæjarbúum sem leituðu til safnsins með aðskiljanleg málefni tekið með alúð og ríkri þjónustulund. En áfram var unnið hratt og örugglega að þessari niðurrifsstefnu eins og sveitarhagur væri í hættu. Hvergi í þeirri vinnu kom fram í hvaða tilgangi þessi gjörningur væri í rauninni gerður. Þó var upplýst að hann ætti ekki að skila fjárhagslegum ávinningi.

Sögufélag Kópavogs hafði fylgst náið með þessari uggvænlegu þróun mála og þegar menningarmálaráðuneytið kom fram með drög að frumvarpi sem ætlað var að fullnusta þessi áform sveitarfélaganna tveggja þótti okkur nóg komið og félagið setti inn á samráðsgátt stjórnvalda ýtarlegan rökstuðning gegn þessum ákvörðunum. Áður hafði félagið staðið fyrir fjölmennum íbúafundi um málið. Þar var niðurlagningu Héraðsskjalasafnsins og Náttúrufræðistofu harðlega mótmælt og ályktun fundarins þess efnis send bæjarstjórn. En skriðþungi málsins var orðinn mikill hjá ráðamönnum og drögin urðu að frumvarpi hjá Alþingi og þann 17. maí sl. sendi Sögufélagið aftur inn umsögn um frumvarp um breytingu á lögum um opinber skjalasöfn, sjá hér:
https://www.althingi.is/thingstorf/thingmalin/erindi/154/938/?ltg=154&mnr=938
Þar kom m.a. fram:
• Ekki er að sjá að varðveisla einkaskjalasafna sé að neinu leyti tryggð með þessu frumvarpi. Vegna ákvarðana Reykjavíkurborgar og Kópavogsbæjar um að leggja niður héraðsskjalasöfn sín hefur traust almennings á opinberum vörslustofnunum menningarverðmæta beðið alvarlegan hnekki m.a. með þeim afleiðingum að einkaskjalasöfn berast þeim ekki.
•Ekki er að sjá að Þjóðskjalasafn muni taka við fylgifé (munum og menningarminjum) skjalasafna í vörslu Héraðsskjalasafns Kópavogs til varðveislu ef marka má orð sviðsstjóra í greinargerð til bæjarráðs Kópavogs sem lögð var fyrir 3172. fund þess 2. maí sl. Hvað á að verða um þessa mikilvægu hluti?
•Algerlega er óljós sá kostnaður sem sveitarfélög sem afhenda Þjóðskjalasafni skjöl sín þurfi að bera í framhaldi af þessu frumvarpi.
•Útfærsla á aðgengi almennings að skjölum sveitarfélaga í Þjóðskjalasafni er algerlega óljós.
•Þrengt verður að aðgengi almennings í Kópavogi að gögnum.
•Kópavogsbær hefur látið hjá líða að upplýsa bæjarbúa um áform sín um Héraðsskjalasafn Kópavogs og safngögn þess, sem sannarlega varða þá með almennum hætti og hafa verulega þýðingu fyrir sveitarfélagið. Jafnframt hefur bærinn látið hjá líða að upplýsa um áhrif þess og afleiðingar fyrir þjónustu sveitarfélagsins til skemmri og lengri tíma, fjárhag sveitarfélagsins, umhverfi og markmið sem að er stefnt með þessu.
•Sjálfstæði héraðsskjalasafna að lögum felur í sér kröfu um faglega meðferð safngagnanna. Reykjavíkurborg hefur falið ófagmenntuðum sviðstjóra yfirstjórn safngagna Borgarskjalasafns og Kópavogsbær hefur í hyggju að gera það sama með safngögn Héraðsskjalasafns Kópavogs. Þetta er Sögufélagi Kópavogs áhyggjuefni þar sem í þessu felst óvirðing við faglega meðferð skjala, bæði opinberra og þeirra sem Sögufélagið hefur hvatt til að yrðu afhent Héraðsskjalasafni Kópavogs. Sá trúnaðarbrestur sveitarfélaganna gagnvart borgurunum kallar á viðbrögð löggjafans.
•Grundvöllur er fyrir því að hvert héraðsskjalasafn á fætur öðru muni falla í framhaldi af niðurlagningu Borgarskjalasafns og Héraðsskjalasafns Kópavogs, frumvarpið miðar aðeins að því að auðvelda Þjóðskjalasafni að taka við niðurlögðum héraðsskjalasöfnum
Umsögnin ásamt öðrum er núna til skoðunar hjá allsherjar- og menntamálanefnd Alþingis og auðvitað standa vonir okkar til að tekið verði tillit til umsagnanna og ekki hrapað að afgreiðslu frumvarpsins.
Sögufélaginu fannst rétt við samningu þessarar greinar að fá forstöðumann Héraðsskjalasafnsins til að upplýsa um atvik málsins:
Eftir þetta eignarafsal bæjarstjórnar, stendur fyrir dyrum að safngögn Héraðsskjalasafnsins verði flutt í Þjóðskjalasafn Íslands. Þar er um að ræða skjöl allra stofnana, stjórna, ráða og nefnda bæjarins. Nánar tiltekið m.a. skóla, leikskóla, sundlauga, menningarstofnana, bæjarstjórnar, bæjarráðs, byggingarnefndar. Auk þess þau einkaskjalasöfn sem varðveitt hafa verið í Héraðsskjalasafninu þ.e. frá einstaklingum, félagasamtökum og fyrirtækjum í bænum. Meðal þeirra eru skjöl elstu og merkustu félagasamtaka Kópavogsbúa: Framfarafélagsins Kópavogs og stjórnmálaflokksfélaga bæjarins, safnaðarnefnda, Kvenfélags Kópavogs og kvenfélaga, Búnaðarfélags Digranesháls, Leikfélags Kópavogs, Breiðabliks og annarra íþróttafélaga, Hestamannafélagsins Gusts, Skógræktarfélagsins, Golfklúbba, Rótarýklúbba, Lionsklúbbs.
Örlög handbókasafns Héraðsskjalasafnsins eru óljós, en það var sérsniðið að sögu Kópavogs og þeim skjölum sem varðveitt voru í Héraðsskjalasafninu m.a. útgáfa Kópavogsbæjar og bæjarblöðin. Ýmsir bæjarbúar höfðu lagt til bækur til þess með gjöfum, sumum veglegum og er það talið eitt stærsta sérhæfða sagnfræðibókasafn á Íslandi utan Sagnfræðistofnunar Háskóla Íslands.
Um nokkurra ára skeið hefur Sögufélagið staðið að fjölsóttum myndgreiningarmorgnum í samvinnu við Héraðsskjalasafnið, þar eru sýndar ljósmyndir og gestir greina myndefnið, nöfn og staðhætti. Þetta hefur kallast á við skráningu Héraðsskjalasafnsins, sameinað skemmtun og afþreyingu sagnfræðilegri söfnun.
Einnig hefur Sögufélagið stutt við söfnun Héraðsskjalasafnsins á skjölum úr fórum einkaaðila. Það er mjög persónulegt og byggist á miklu trúnaðartrausti. Aðgengi að skjölunum fer nú úr Kópavogi. Ýmsir hafa kallað eftir að fá skjölin til baka, því það var aldrei ætlun þeirra að þau yrðu varðveitt í Reykjavík.
Svo er heilt minjasafn í Austurkór sem hefur verið undir væng Héraðsskjalasafnsins. Þar er fjöldi merkra gripa.

Hrafn Sveinbjarnarson héraðsskjalavörður hefur gagnrýnt ákvarðanir borgarstjórnar og bæjarstjórnar Kópavogs á opinberum vettvangi m.a. á vefsíðunni: https://heradsskjalasafn.is/
og nú síðast með umsögn sem birtist á vefsíðu Alþingis um lagafrumvarp um breytingu á lögum um opinber skjalasöfn: https://www.althingi.is/thingstorf/thingmalin/erindi/154/938/?ltg=154&mnr=938
Hann segir:
„Það kann ekki góðri lukku að stýra í menningarmálum að fagmenn á því sviði verði fyrir starfsmissi vegna þess að þeir tjái sig um fagmálefni sín. Pirringur og valdhroki í anda hjartadrottningarinnar í Lísu í Undralandi á bara heima í skáldskap. Bæjarstjóri sem ber purpurakápuna á báðum öxlum, er jafnt stjórnmálamaður sem embættismaður, ber mikla ábyrgð og verður að gæta meðalhófs, stillingar og vandaðrar stjórnsýslu. Búið er að knésetja menningarlíf í Kópavogi á hálfu kjörtímabili, uppbyggingu sem tók mörg kjörtímabil. Nokkrum fjármunum hefur að undanförnu verið varið í auglýsingar til að fela þetta, því þetta er orðið vandræðalegt fyrir bæinn. Náttúrufræðistofunni var breytt úr fræðasetri í froðusirkus. Enginn innanborðs í bæjarkerfinu þorir að gagnrýna neitt, því vald bæjarstjóra sem er jafnframt kjörinn fulltrúi jafnast á við óbundið vald einvaldskonunga. Ef menn segja eitthvað sem hátigninni þóknast ekki þá missa þeir starfið. Ég hef aldrei áður skynjað eins mikinn ótta meðal bæjarstarfsmanna og ég tala af 18 ára reynslu í þjónustu bæjarins. Samanlagt erum við Guðmundur Þorsteinsson skjalavörður, sem einnig hefur verið sagt upp störfum, þeir einu sem þekkja safngögn Héraðsskjalasafnsins til hlítar, við höfum sérhæfst sem þjónar Kópavogs og Kópavogsbúa. Að henda okkur svona út er býsna vitlaust. Ég varði hagsmuni Kópavogsbæjar gagnvart Þjóðskjalasafni kröftuglega í mörg ár og steig rækilega í kjólfalda silkihúfnanna þar. Þar mun ég ekki starfa og verð að finna mér nýtt starfsvið.
Minni bæjarins, safngögn Héraðsskjalasafnsins, er með þessu flutt á brott úr bænum, bærinn fær óhjákvæmilega nokkurskonar minnisglapasýki út úr þessu. Skjölin eru valdmiðlar þ.e. ekki ólíkt gjaldmiðlum. Valdmiðlar miðla réttindum og skyldum. Skjalaverðir skilja valdmiðla og völd, fjármálamenn skilja gjaldmiðla og peninga. Fyrir bæinn er þetta eins og fyrir einstakling að týna veskinu með persónuskilríkjunum. Þetta mun óhjákvæmilega hafa slæmar afleiðingar fyrir Kópavogsbúa. Svona glansglyðrupólitík er svo gersamlega tilgangslaus.“
Það er öllum ljóst sem eitthvað þekkja til Sögufélags Kópavogs að það stendur frammi fyrir miklum vanda.
Lög félagsins segja: „Tilgangur félagsins er að stuðla að söfnun og varðveislu sögulegra og menningarlegra minja í Kópavogi og nágrenni. Þeim tilgangi má ná með því að gefa út rit um sögu Kópavogs, að halda umræðufundi, fræðslufundi, standa fyrir vettvangsferðum og efna til ráðstefna er varða sögu Kópavogs, að styðja söfn er lúta að sögu Kópavogs, kynna þau og stuðla að afhendingu skjala og minja til þeirra.“
Að öllum þessum málum hefur félagið unnið í samvinnu við Héraðsskjalasafnið. Þar höfum við fengið ómetanlega aðstoð hjá þeim færu fagmönnum sem þar hafa starfað. Það er ekki á færi áhugamanna um sögu og fróðleik að halda úti svo metnaðarfullu starfi án aðstoðar sérfróðra sagnfræðinga. Þeir hafa í starfi sínu veitt okkur upplýsingar og staðið þétt með okkur í útgáfumálum, gerð söguskilta, fyrirlestrahaldi, fræðslugöngum, myndgreiningum og skrásetningu upplýsinga sem þar koma fram.
Útgáfurit Héraðsskjalasafnsins og Sögufélags Kópavogs. Væntanleg eru a.m.k. tvö rit, smárit um Félagsheimili Kópavogs og veglegt rit Guðlaugs Rúnars Guðmundssonar um örnefni í Kópavogi. Mynd Guðmundur Þorsteinsson.
Segja má að Sögufélagið sé eins konar farþegi í þeirri vélarvana skútu sem Héraðsskjalasafnið er nú. Við hrekjumst með safninu í átt að brimgarðinum sem blasir við og hvort við náum heilir landi er alls óvíst. Það er sárt að vera í þessari stöðu ekki síst þegar tekið er tillit til þess að nú á næsta ári eru tvö stórafmæli sem við í Sögufélaginu höfðum hlakkað til að fá að leggja okkar lóð á vogarskálarnar við að gera eftirminnileg. Annars vegar 70 ára afmæli Kópavogskaupstaðar og hinsvegar 75 ára afmæli Breiðabliks en þar er formaður félagsins í undirbúningshóp. Einnig erum við í ákveðnu samstarfi við Lionsklúbb Kópavogs.
Að lokum: Sá sem gleymir uppruna sínum týnir sjálfum sér. Þetta á jafnt við um einstaklinga, félagasamtök og heilt bæjarfélag.
-Stjórn Sögufélags Kópavogs.