Ný aðstaða verður tekin í notkun við menningarhúsin í Kópavogi um helgina með það að leiðarljósi að tengja betur saman starfsemi menningarhúsanna og skapa þægilegra útivistarsvæði fyrir börn og fullorðna. Bekkjum og leiktækjum verður komið fyrir á svæðinu. Þetta er fyrsta skrefið í átt að frekari breytingum og þróun svæðisins á næstunni, að því er fram kemur í tilkynningu frá Bókasafni Kópavogs.
Þetta þýðir að bílastæðinu, sem hingað til hefur rúmað um það bil 20 bíla, milli Gerðarsafns, Salarins og Safnahússins verður lokað nema fyrir þá sem leggja í bílastæði fatlaðra. Annarri umferð verður sem fyrr beint í tveggja hæða bílastæðahús gegnt Salnum en einnig er hægt að leggja vestan megin Gerðarsafns. Bílastæði fyrir fatlaða verða áfram norðan Salarins.
Svæðið í kringum menningarhúsin verður þróað áfram í sumar í samræmi við nýsamþykkta menningarstefnu Kópavogsbæjar en aðlaðandi útivistarsvæði skapar fallegri umgjörð og styður betur við starfsemi menningarhúsanna og nálægð þeirra við Sundlaug Kópavogs, Borgarholtið og Kópavogskirkju.
Vonir standa til að með þessum breytingum og opnun kaffihúss í Gerðarsafni í sumar verði hægt að skapa sterkari og líflegri menningarkjarna í Kópavogi á miðju höfuðborgarsvæðisins sem verði fjölsóttur allan ársins hring.