Ný byggð mun rísa við sjávarsíðuna yst á Kársnesi í Kópavogi. Skipulagi og hönnun svæða er að mestu lokið og framkvæmdir hafnar á stórum hluta. Stefnt er að því að þessi nýja byggð muni rísa á næstu fimm árum. Alls er gert ráð fyrir um 700 íbúðum á svæðinu, að því er fram kemur í tilkynningu.
Lóðirnar, þar sem ný hús eru nú í byggingu, eru flestar við göturnar Hafnarbraut, Vesturvör, Bakkabraut og Bryggjuvör á Kársnesi. Auk þess verða nokkrar nýjar götur lagðar á svæðinu sem munu þjóna aðkomu að nýjum húsum. Á sama tíma munu eldri iðnaðarhús á svæðinu verða rifin í samræmi við aðalskipulag sem gerir ráð fyrir íbúabyggð á svæðinu. Nokkrir byggingaraðilar koma að verkefninu og margir arkitektar koma að hönnun á ýmsum lóðum svæðisins.
Spennandi kostur
,,Þetta nýja hverfi verður spennandi kostur og skemmtileg viðbót á markaðnum. Um er að ræða uppbyggingu í grónu hverfi þar sem hægt er að sækja nánast alla þjónustu í næsta nágrenni ásamt því að stutt er í nýjan Kársnesskóla og fjölgun leikskóla. Íbúðirnar sem munu rísa á svæðinu eru af ýmsum stærðum. Mikil áhersla er lögð á íbúðir sem eru vel skipulagðar, þ.e. góða nýtingu fermetra og fleiri herbergi. Þetta mun verða fallegt hverfi á einum besta stað miðsvæðis á höfuðborgarsvæðinu með nálægð við sjóinn og smábátahöfnina. Auk þess er stutt í útivist með fjölda hjóla-, hlaupa- og göngustíga sem liggja allt um kring í hverfinu,“ segir Einar Steindórsson, framkvæmdastjóri fjárfestinga hjá Íslenskri fjárfestingu, sem heldur utan verkefnið fyrir hönd lóðareigenda.
Góð samvinna
,,Þetta er ákaflega spennandi og metnaðarfull uppbygging í grónu og fallegu hverfi í Kópavogi sem við höfum unnið í góðu samstarfi við íbúa. Kópavogsbær leggur mikinn metnað í þetta svæði, bæði hvað varðar skipulag á lóðum sem aðrir eru að byggja upp, og á opnum svæðum sem Kópavogsbær mun byggja upp við höfnina. Þá mun nýja brúin yfir Fossvog bæta tengingar og samgöngur á svæðinu,“ segir Ármann Kr. Ólafsson, bæjarstjóri Kópavogs. Einar segir að mjög góð samvinna hafi verið milli lóðareigenda, byggingaraðila og Kópavogsbæjar um uppbyggingu á nýja svæðinu. ,,Heildarmyndin er að skýrast og verið er að skipuleggja síðustu lóðirnar á svæðinu. Það er lögð mikil áhersla á að þessi nýja byggð muni rísa öll í einni lotu á næstu fimm árum. Þar sem verið er að gæða gamalt hverfi nýju lífi með fjölbreytti íbúðabyggð er nú unnið að hreinsun ákveðinna lóða þar sem eldri atvinnuhús munu víkja, breikkun göngustíga og breytingu á götum til að aðlaga hverfið að stækkun byggðar. Þessar aðgerðir munu hafa áhrif á umferð til hins betra og með tilkomu brúarinnar yfir Fossvoginn munu almenningssamgöngur og umferð fyrir gangandi og hjólandi stórbatna og stytta leið yfir á háskólasvæðið og miðbæ Reykjavíkur.“ segir Einar ennfremur.
Sala hafin á fyrstu íbúðum
Fyrsta húsið er komið í sölu en um er að ræða 24 íbúða fjölbýlishús við Hafnarbraut 9. Áætlað er að íbúðir í húsinu verði afhentar á vormánuðum 2019. Kársnesbyggð ehf, sem er lóðarhafi og seljandi íbúðanna, hefur samið við fasteignasölurnar Lind og Miklaborg um sölu á íbúðum í húsinu.
,,Hafnarbraut 9 er fallegt fjölbýlishús á góðum stað í nýju og spennandi hverfi við sjávarsíðuna yst á Kársnesi,“ segir Fanney Magnúsdóttir, verkefnastjóri hjá Kársnesbyggð ehf. „Íbúðirnar eru mjög vel hannaðar og vandað er til verka við byggingu þeirra. Mikið er lagt upp úr hönnun og nýtingu rýma íbúða til að ná fram hagkvæmi og auka notagildi. Þetta er spennandi verkefni bæði þetta nýja fjölbýlishús og hverfið í heild sinni sem verður mjög fallegt og á einum besta stað miðsvæðis á höfuðborgarsvæðinu með nálægð við sjóinn og smábátahöfnina. Með nýrri brú yfir Fossvoginn munu almenningssamgöngur og umferð fyrir gangandi og hjólandi stórbatna og stytta leið yfir á háskólasvæðið og miðbæ Reykjavíkur.“ Íslenskar fasteignir fara með umsjón með verkefninu.
Eldri atvinnuhús víkja
Íbúðirnar í húsinu eru tveggja til fjögurra herbergja, frá 59,3 fm til 172,4 fm að stærð. Við byggingu hússins var lögð áhersla á að lágmarka viðhald þess. Lokað bílageymsluhús er í kjallara og fylgir rafmagnstengill hverju stæði. Að sögn Fanneyjar er fyrirhugað að þessi nýja byggð muni rísa öll í einni lotu á næstu fimm árum en unnið er að hreinsun ákveðinna lóða þar sem eldri atvinnuhús munu víkja. Þá er einnig unnið að breikkun göngustíga og breytingu á götum til að aðlaga hverfið að stækkun byggðar.