Leikskólinn Austurkór í Kópavogi var vígður um helgina. Leikskólinn er um 870 fermetrar að stærð og ráðgert er að þar verði sex deildir og 120 leikskólabörn. Leikskólinn er í Austurkór 1 og tekur á móti leikskólabörnum í nærliggjandi hverfum. Guðný Anna Þóreyjardóttir er leikskólastjóri. Fyrstu börnin byrja í leikskólanum um miðjan febrúar, segir í tilkynningu frá Kópavogsbæ.
Ármann Kr. Ólafsson, bæjarstjóri, færði skólanum spjaldtölvu að gjöf, fyrir hönd bæjarstjórnar, en í stefnu bæjarins í upplýsingatækni leikskóla er lögð áhersla á gott aðgengi leikskólabarna að nútímatækni. Aðalsteinn Jónsson, formaður leikskólanefndar, færði skólanum heimskort að gjöf, fyrir hönd leikskólanefndar og menntasviðs.
Fyrsta skóflustungan að skólanum var tekin í desember 2012 og sá verktakafyrirtækið Eykt um hönnun og byggingu leikskólans. Kostnaður nam um 307 milljónum króna.
Austurkór er annar leikskólinn frá því bankakerfið hrundi árið 2008 sem byggður er á landinu. Hinn fyrri var byggður nýverið í Garðabæ. Í fjárhagsáætlun Kópavogsbæjar fyrir þetta ár er gert ráð fyrir fjármagni til að hanna nýjan leikskóla í Gulaþingi.
Með Austurkór er 21 leikskóli í Kópavogi en auk þess eru í bænum tveir einkareknir leikskólar. Yfir 2.000 börn eru í leikskólum í Kópavogi.