Ármann Kr. Ólafsson, bæjarstjóri, vígði í dag nýjan þjónustukjarna fyrir fatlaða í vesturbæ Kópavogs. Í nýja húsnæðinu eru innréttaðar fjórar íbúðir sem og aðstaða fyrir starfsmenn sem veita íbúunum þjónustu allan sólarhringinn. Húsnæðið var að hluta til í eigu bæjarins en keypt að öllu leyti seinni hluta síðasta árs í þeim tilgangi að breyta í íbúðir ætlaðar fötluðum.
Kópavogsbær tók við málefnum fatlaðra af ríkinu í ársbyrjun 2011. Þá lá fyrir biðlisti 20 einstaklinga eftir húsnæði með sértækri þjónustu. Bæjarfélagið setti strax af stað áætlanir um að tryggja þessu fólki nauðsynlegar úrbætur. Þegar árið 2011 var opnaður nýr þjónustukjarni og um leið var herbergjasambýli lagt niður.
Kópavogsbær hefur til viðbótar þessu hafið undirbúning að byggingu 10 íbúða og að auki lagt drög að breytingum sem hefur í för með sér að fleiri félagslegar leiguíbúðir standi fötluðum til boða.
Myndirnar hér að neðan eru frá athöfninni í dag: