Nytjamarkaðurinn í Víkurhvarfi var formlega opnaður um helgina með pompi og prakt. Efnt var til hátíðar og var gestum boðið upp á veitingar og Stuðmaðurinn sjálfur Valgeir Guðjónsson tók lagið. Markaðurinn flutti frá Súðarvogi, þar sem hann hefur verið til húsa síðan árið 2011, í Víkurhvarf 2 þann 15. janúar og hafa dyrnar í raun verið opnar á nýja staðnum síðan þá. Starfsmenn hafa unnið hörðum höndum við að koma öllu í stand og endanlegt útlit liggur nú nokkurn veginn fyrir.
Gengi markaðarins í Víkurhvarfi hefur verið framar vonum, að því er fram kemur í tilkynningu. Tryggir viðskiptavinir frá gamla staðnum á Súðarvogi hafa tekið þeim nýja fagnandi og nýjum andlitum bregður fyrir daglega. Þráinn Þorsteinsson og Brynja Pétursdóttir vorum meðal gesta á opnunarhátíð Nytjamarkaðarins og leist vel á staðinn. Þau sögðust hafa gert mjög góð kaup og myndu hiklaust benda öðrum á að kíkja hingað.
Nytjamarkaðurinn er rekinn af ABC Barnahjálp sem menntar þúsundir barna í átta löndum Afríku og Asíu. Í sex þessarra landa fer menntunin fram í eigin skólum ABC.