Aðalskipulag Kópavogs 2019-2040 var staðfest af skipulagsstofnun, 28. desember 2021. Með því er kominn grunnur undir áframhaldandi uppbyggingu í Kópavogi. Heimsmarkmið Sameinuðu þjóðanna um sjálfbæra þróun voru einnig innleidd í aðalskipulagið og eru þau því til hliðsjónar við alla skipulagsvinnu.
Kópavogsbúum fjölgar hratt og við gætum verið 50.000 manna bæjarfélag undir lok skipulagstímabilsins 2040. Í aðalskipulaginu er gert ráð fyrir að allt að 3.900 nýjum íbúðum til ársins 2030 og 1.860 íbúðum eftir það til 2040. Næstu hverfin til þess að rísa eru vesturhluti Glaðheima og svo er vinna hafin við skipulag Vatnsendahæðar, þar sem útvarpsmöstrin voru. Í Glaðheimum er gert ráð fyrir 500 íbúðum, leikskóla, góðu útivistarsvæði og 36.000 fm. af atvinnu- og þjónustuhúsnæði. Úthlutun á lóðum þar fer fram á næstu misserum. Í Vatnsendahæð er gert ráð fyrir 500 íbúða byggð af einbýlis-, rað- og parhúsum ásamt þriggja hæða fjölbýli. Það er lögð áhersla á fjölbreytt útivistarsvæði og hundagerði innan hverfisins.
Borgarlínan
Borgarlínan er innleidd í nýtt aðalskipulag og mun fyrsti hluti Borgarlínu fara yfir Fossvogsbrú og eftir Borgarholtsbraut að Hamraborg. Ekki er búið að taka lokaákvörðun um það hvort Borgarlínan gangi svo frá Hamraborg í Smárann um Hafnarfjarðarveg/Fífuhvammsveg eða Digranesveg/Dalveg. Við fyrstu rýni þá virðist Hafnarfjarðarvegur/Fífuhvammsvegur vera ákjósanlegri, m.a. vegna betri þjónustu við íþróttasvæðið í Kópavogsdalnum. Það á einnig eftir að útfæra hvernig Borgarlínan fer um Borgarholtsbraut, hvort hún verði í sérrými eða ekki.
Ég tel að fyrsti hluti Borgarlínu og brúin yfir Fossvoginn eigi eftir að vera mikil lyftistöng fyrir vestur- og miðbæ Kópavogs. Það er dapurlegt að í dag er verri aðstaða fyrir farþega almenningssamgangna en var þegar ég var krakki og skiptistöðin var og hét. Við þurfum góða samgöngumiðstöð í Hamraborginni.
Vatnsendahlíð og Arnarnesvegur
Það hefur ekki farið framhjá neinum að mikill ágreiningur hefur verið um Vatnsendalandið. Þau mál eru í farvegi og við nálgumst þann tímapunkt að hægt verði að skipuleggja svæðið undir byggð. Í Vatnsendahlíð er fyrirhuguð blönduð íbúabyggð þar sem gert er ráð fyrir 180 íbúðum fyrir árið 2030 og allt að 900 íbúðum til ársins 2040. Þarna verður nýr grunnskóli og leikskóli. Það skiptir máli að allir innviðir séu í lagi áður en haldið er af stað í slíka uppbyggingu. Huga þarf vel að samspili byggðar og náttúru, að aðstæður til útivistar verði eins og best verður á kosið og að samgönguinnviðir séu í lagi.
Núna er í auglýsingu tillaga að deiliskipulagi síðasta hluta Arnarnesvegar og fer því að glitta í að hann verði loksins kláraður. Tenging Arnarnesvegar við Breiðholtsbraut mun stórbæta samgöngur í efri byggðum Kópavogs og er forsenda þess að hægt sé að hefja uppbyggingu í Vatnsendahlíð.
Bæjargötur
Ein skemmtileg nýbreytni í nýju aðalskipulagi er að hugtakið bæjargötur er innleitt, en það eru lykilgötur í hverju hverfi sem eiga að njóta forgangs við endurhönnun, fegrun og uppbyggingu fjölbreyttra ferðamáta. Dæmi um bæjargötur eru Þingmannaleið, Salavegur, Digranesvegur, Borgarholtsbraut og Smárahvammsvegur, en það er fyrsta bæjargatan sem er endurhönnuð. Þar verða göngu- og hjólastígar aðskildir, gróður aukinn með stækkun grænna svæða og umferðaröryggi aukið með fækkun akreina.