Glænýr gervigrasvöllur var í kvöld vígður í Fífunni. Ármann Kr. Ólafsson bæjarstjóri, Una María Óskarsdóttir, formaður íþróttaráðs og Borghildur Sigurðardóttir, formaður Knattspyrnudeildar Breiðabliks, tóku upphafsspyrnuna í opnunarleik Breiðabliks og HK í 3. flokki karla í knattspyrnu.
Grasið er sagt vera eitt hið besta sem völ er á, af nýjustu kynslóð gervigrasa, og stenst ítrustu kröfur sem gerðar eru.
Strákarnir í þriðju flokkum Breiðabliks og HK gjörþekkja hvorn annan enda marga hildina háð í gegnum tíðina. Það sást greinilega inni á vellinum þar sem mikið jafnræði var með liðunum. Blikarnir voru þó meira með boltann og voru meira ógnandi fram á við. Það kom því eins og þruma úr heiðskýru lofti þegar Jón Dagur Þorsteinsson kom HK 1:0 yfir um miðbik fyrri hálfleiks beint úr aukaspyrnu. HK leiddi í hálfleik. Enginn annar en Adam Ægir Pálsson náði að jafna fyrir Blikana um miðbik síðari hálfleiksins eftir góða sókn Blikastráka.
Blikarnir stjórnuðu hraðanum í leiknum og voru meira með boltann. HK-ingar vörðust vel og voru verulega ógnandi í skyndisóknum. Eftir eina slíka kom Ísak Óli Helgason HK-ingum yfir 2:1 eftir glæsilega sendingu frá Gunnari Hákoni Unnarssyni sem allt í einu var kominn einn og óvaldaður inn í teig andstæðingana. Lagleg afgreiðsla.
Blikarnir gáfu allt í leikinn og náðu að jafna með góðu marki frá Gunnari Geir Baldurssyni. Sóknarþungi þeirra þyngdist og á síðustu sekúndunum skoraði Sólon Breki Leifsson sigurmarkið, 3:2 við gríðarlegan fögnuð Blikaforeldra á hliðarlínunni.
„Ekki séns að við förum að tapa opnunarleik á okkar heimavelli,“ sagði Tryggvi Björnsson, þjálfari Blikastráka og gamall ÍK-ingur, í leikslok vígreifur að vanda.
Það er ljóst að þessir ungu og efnilegu knattspyrnumenn í HK og Breiðablik eiga framtíðina fyrir sér því þessi opnunarleikur á nýja grasinu í Fífunni var bráðfjörugur og mjög vel spilaður hjá báðum liðum.