
Samhugur og samkennd ríkti í Kórnum í gærkvöldi þar sem HK-ingar, Blikar og margir fleiri fjölmenntu til að styðja við bakið á Bjarka Má Sigvaldsson og fjölskyldu hans í baráttu hans við illvígt krabbamein. Meistarflokkar Breiðabliks og HK öttu kappi þar sem úrslitin skiptu nákvæmlega engu máli. Aðal atriðið var að skemmta sér og öðrum og sýna samhug í verki.
Bjarki Már var sjálfur mættur ásamt fjölskyldu sinni þrátt fyrir lyfjagjöf fyrr um daginn og heilsaði leikmönnum og dómurum fyrir leik. Það tók sinn tíma því margir þurftu að faðma hann og óska honum góðs gengis í sinni baráttu. Hann var aftur mættur niður á völlinn í leikslok til að þakka fyrir sig.
Bjarki Már skrifaði eftirfarandi á Facebook eftir leikinn:
„Mér, Astros og allri fjölskyldunni langar að þakka ykkur öllum fyrir að koma og sýna mér og okkur fjölskyldunni þennan ómetanlega stuðning. Þessi kvöldstund verður mér ógleymanleg alla ævi !! Ég mun nýta þennan kraft sem ég gjörsamlega andaði að mér í kvöld til þess fleyta mér í gegnum þessi veikindi !
Verð líka að hrósa þeim sem stóðu að þessari hátíð, ég er ótrúlega stoltur að eiga ykkur sem vini og þetta sýnir manni hvað HK og Breiðablik eru mögnuð félög sem standa við bakið á sínu fólki. Einnig sér maður vel hvað íþróttafélög eru mikilvæg og spila stóran þátt í lífi fólks!
Ég vona bara innilega að ég geti gefið af mér til baka einn daginn og ég get með sanni sagt að ég er örlítið grænni í dag en í gær bara aðeins samt.
Þúsund þakkir og ást á ykkur öll
Kveðja
Bjarki og Ástrós
Heiðar Bergmann Heiðarsson gerði þetta fallega myndband fyrir blikar.tv
