Frisbígolf í Kópavogsdal, vatnspóstar á Kársnesstíg, útsýnisstaður í Kórahverfi og fegrun Hamraborgar eru meðal þess sem íbúar Kópavogs völdu í kosningum í verkefninu Okkar Kópavogur. Alls hlutu 35 hugmyndir brautargengi en 200 milljónum verður varið í verkefnin. Framkvæmdir hefjast í haust en lýkur á næsta ári.
Um 3.500 manns tóku þátt í kosningunni eða 12,5% Kópavogsbúa 16 ára og eldri.
„Við þökkum Kópavogsbúum fyrir frábærar undirtektir við verkefninu Okkar Kópavogur. Þátttakan er meiri en þekkst hefur í sambærilegum verkefnum og umfram þau markmið sem við settum okkur þannig að við erum afar sátt. Næsta skref er framkvæmdir verkefnanna sem hefjast fljótlega,“ segir Theodóra S. Þorsteinsdóttir formaður bæjarráðs Kópavogs.
„Það er ánægjulegt hversu margir láta sig nærumhverfið varða og vilja taka þátt í mótun bæjarins, “ segir Ármann Kr. Ólafsson bæjarstjóri Kópavogs.
Á bilinu sex til átta verkefni hlutu kosningu í fimm hverfum Kópavogs. Á vefsíðu Kópavogsbæjar er að finna lista yfir verkefnin sem sett verða í framkvæmd og niðurstöður kosninganna:
Sjá nánar: